Fellur metið í kvöld?

Úrkomuspá fyrir kvöldið í kvöld, sunnudaginn 22. júlí.
Úrkomuspá fyrir kvöldið í kvöld, sunnudaginn 22. júlí. www.vedur.is

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að lægðin sem er að ganga yfir landið sé með þeim dýpstu sem sést hafi í júlímánuði. Hann telur líklegt að loftþrýstingsmetið, sem er frá árinu 1901, muni falla síðar í dag eða í kvöld.

Hann segir á bloggi sínu að hann hafi fylgst vel með lægðinni í gær, og að SA-strengurinn sem kom á undan skilunum hafi verið líkari því sem gerist í haustlægðum en að sumri til. Vindhraði hafi verið að jafnaði mun meiri í um 1.000-1.500 metra hæð en við yfirborð jarðar eða um 20-25 m/s á móti 8-12 m/s. Hins vegar hafi á stöku stað mælst hraðari vindur, einkum á sunnanverðu landinu, og nefnir hann að mesta vindhviðan hafi verið við Hvamm undir Eyjafjöllum þar sem vindhraðinn var um 40 m/s. 

Einar veltir fyrir sér hverju sætir, og segir hugsanlegt að við þær aðstæður um miðsumar þegar tiltölulega hlýtt er við yfirborð og mjög hlýtt í miðlægum loftlögum nái vindur síður að slá sér niður til yfirborðsins en fljóti að mestu yfir landið. Hins vegar vanti reynslu á svona aðstæður að sumri til til þess að hægt sé að fullyrða um þetta.

Einar segir að lokum: „Það breytir þó því ekki að lægðin er með þeim allra dýpstu sem sést hafa hér við land í háa herrans tíð í júlí (en þætti hins vegar ekkert merkileg um mánaðamótin ágúst/september). Afar líklegt má telja að loftþrýstingsmetið frá 1901 falli síðar í dag eða í kvöld. 974,1 hPa mælsist í Stykkishólmi 18. júlí það ár. Sennilega fer þrýstingur niður í 971-972 hPa á Stórhöfða eftir því sem lægðarmiðjan sjálf nálgast, en hún er aðeins farin að grynnast eftir að hafa náð mestu dýpt snemma í morgun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert