Enga olíuhreinsistöð í Finnafjörð

Reimar Sigurjónsson, bóndi og sveitarstjórnarmaður á Felli í Finnafirði.
Reimar Sigurjónsson, bóndi og sveitarstjórnarmaður á Felli í Finnafirði. Ljósmynd/Reimar Sigurjónsson

„Ég er bara alfarið á móti þessu. Ég tel að það sé ekki hægt að vera með matvælaframleiðslu í nágrenni olíuiðnaðar og stórskipahafnar,“ sagði Reimar Sigurjónsson, bóndi á Felli í Finnafirði þegar hann hafði samband við blaðið. Í Finnafirði eru uppi áform um stórskipahöfn og olíuhreinsistöð í aðalskipulagsgerð Langanesbyggðar og var fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag. Reimar á einnig sæti í sveitarstjórn Langanesbyggðar.

„Ég er eini sauðfjárbóndinn við Finnafjörð. Mér finnst alveg vanta sjónarmið atvinnurekenda í umræðuna,“ sagði Reimar.

Reimar segir að vinna sé í gangi við aðalskipulagið og að á næstunni muni sveitarstjórn fara yfir innkomnar athugasemdir, sem hann telur þó nokkrar vegna þessara áforma.

„Ég er í sveitarstjórn og ég er ekki samþykkur þessu aðalskipulagi þannig að það er ekki einhugur í sveitarstjórn Langanesbyggðar um þetta mál,“ sagði Reimar.

„Já það er meirihluti fyrir þessu, en ekki einhugur. Mér finnst það vanta í fjölmiðlaumfjöllunina,“ sagði Reimar um hvort meirihluti væri fyrir málinu í sveitarstjórninni.

„Það eru bara einstaklingar að mestu. Ríkið á að vísu eina jörð og sveitarfélagið smá skika. Svo eru bara einstaklingar sem eiga megnið af þessu landi. Þeir eru á móti þessu líka,“ sagði Reimar um eignarhald á þeim jörðum sem málið snertir og afstöðu eigenda til málsins.

Reimar býr með um 300 fjár á bænum Felli og hóf þar að nýju sauðfjárbúskap árið 2008, en áður hafði hann búið á bænum frá 1992-2004. Hann segir að fljótlega eftir að hann flutti aftur norður hafi málið komið í umræðuna og segir hann alveg ljóst að hann hefði ekki hafið sauðfjárbúskap á staðnum að nýju ef hann hefði búist við því að þar yrði reist olíuhreinsistöð í nánustu framtíð.

Í Morgunblaðinu í dag er því velt upp hvort Huang Nubo, kínverski fjárfestirinn sem hyggur á uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum tengist fyrirhugaðri olíuhreinsistöð. Talsmaður Huang er skipulagsráðgjafi Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps og hefur lengi unnið að þessum málum. Reimar segir að hans aðkoma að skipulaginu hafi verið áður en mál Huang hafi komið upp, en að óneitanlega séu einhver tengsl þarna á milli.

Fjölskyldan á Felli í Finnafirði.
Fjölskyldan á Felli í Finnafirði. Ljósmynd/Reimar Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert