Krefja Steingrím J. svara

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Eggert Jóhannesson

Vinstrivaktin, málgagn félaga í VG gegn ESB-aðild, krefst þess að Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, skýri aðkomu sína að Grímsstaðamálinu og þær undanþágur sem hann kunni að hafa veitt Huang Nubo sem ráðherra.

„Það má því segja að spjótin standi á Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vg, efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðaráðherra, að hann geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli,“ segir í greininni sem hér er birt í heild.

„Grímsstaðamálið tekur sífellt á sig skrautlegri myndir og eðlilega spyrja menn nú um tengsl Nubos við fyrirhugaða olíuhreinsstöð og umskipunarhöfn í Finnafirði. En stjórnvöld hafa allt málið í sinni hendi og eðlilegt að þau geri hreint fyrir sínum dyrum. Land Grímsstaða á Fjöllum er í óskiptri sameign nokkurra einstaklinga og ríkisins. Ekki er hægt að leigja hluta óskipts  lands án samþykkis allra landeigenda.

Ríkið á um 25 % Grímsstaða jarðarinnar.  Landbúnaðarráðherra,  Steingrímur J Sigfússon,  fer með eignarhlut ríkisins hvað þessa ráðstöfun varðar.   Jón Bjarnason sem  ráðherra lýsti sig andvígan sölu jarðarinnar til kíinverjans og stóð þétt  með  Ögmundi í ríkisstjórn . Ekki  er kunnugt um að núverandi landbúnaðarráðherra hafi veitt leyfi sitt til umrædds leigusamnings.

Ögmundur Jónasson hefur lagst gegn því að kínverjanum verði veitt undanþága til að gera við hann leigusamning um landið, en málið var að hans sögn tekið úr hans höndum og sett til efnahags og viðskiptaráðherra  þrátt fyrir kröftug mótmæli hans . Ögmundur upplýsti jafnframt  í viðtali við Bylgjuna í síðustu viku, að efnahags- og viðskiptaráðherra hefði  nú þegar veitt undanþágu frá hinni almennu reglu um bann við fjárfestingum útlendinga. Í pistli Láru Hönnu Einarsdóttur Keisarans hallir á Fjöllum er greint frá að efnahags og viðskiftaráðherra hafi veitt umbeðnar undanþágur sem þyrfti til að málið fengi áframhaldandi  framgang. Sjálfur hefur Kínverjinn upplýst að aðeins sé eftir að undirrita samkomulagið en það sé að öðru leyti frá gengið.

Ekki hefur komið skýrt fram í tíð hvaða efnahags- og viðskiftaráðherra undanþágan var  veitt. Var það í tíð Árna Páls  Árnasonar eða Steingríms J. Sigfússonar? Böndin berast þó að Steingrími. Ekki leikur nokkur vafi á, að það  stríðir gegn stefnu og hugmyndum VG að selja eða leigja kínverjanum land  á Grímsstöðum. Hafi Samfylkingarráðherrann, Árni Páll  veitt umræddar undanþágur fyrir kínverjann, ætti  núverandi efnahags og viðskifta ráðherra að vera í lófa lagið að afturkalla þær og standa með Ögmundi, stefnu VG og öðrum þeim, sem vilja hafna þessum áformum.

Það má því segja að spjótin standi á Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vg, efnahags- og viðskiptaráðherra og landbúnaðaráðherra, að hann geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert