Hefur misst 173 lömb í tófuna á sex árum

„Ég skil ekki af hverju er verið að vernda jafngrimmt dýr og tófuna. Tófunni hefur farið mjög fjölgandi, er nú farin að svelta á Hornströndum og sækir því annað. Hún hefur verið að leika sér hér við bæinn og er að eyðileggja möguleikana á því að vera hér með búskap. Það þýðir ekkert að basla við að búa hér því refurinn er að leggja þetta í eyði. Á síðastliðnum sex árum vantar mig nákvæmlega 173 lömb af fjalli sem tófan hefur hirt,“ segir Ragna Aðalsteinsdóttir, bóndi á Laugabóli við Ísafjarðardjúp, í viðtali við Bændablaðið.

Þrátt fyrir margvíslega erfiðleika stendur Ragna samt enn vaktina þótt orðin sé 87 ára gömul og eigi erfitt um gang eftir að hafa fótbrotnað í tvígang. Hún hefur reynt að fá refaskyttur til að halda refnum í skefjum en það dugar ekki til. Hún segir að þar sé við ramman reip að draga, því refaskyttur megi ekki veiða nema takmarkaðan fjölda og á ákveðnum svæðum. Þá sé þetta líka undir duttlungum sveitarstjórnarmanna komið hvernig veiðunum sé háttað.

„Tófan er komin út um allt og ellefu tófur sáust meira að segja í Kópavoginum í fyrra. Hér í Laugardal sér maður ekki fugla langtímum saman, refurinn drepur allt sem hreyfist. Það er helst að maður sjái hér hrafna á lífi. Svo eru menn jafnvel að ala þetta upp sem yrðlinga og sleppa síðan lausu aftur út í náttúruna.

Ég ætla bara að vona að við göngum aldrei í Evrópusambandið þar sem bannað er að drepa refi. Samt er ég dauðhrædd um að eigi að þröngva okkur þangað inn,“ segir Ragna við Bændablaðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert