„Orðið algjörlega óþolandi“

Eimskip í Sundahöfn.
Eimskip í Sundahöfn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er orðið algjörlega óþolandi,“ sagði Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, en tveir menn voru handteknir í morgun þegar þeir reyndu að smygla sér um borð í skip sem var á leið til Ameríku. Einn maður sem sótt hefur um hæli hérna er nú um borð í rannsóknarskipinu Knorr sem hann smyglaði sér um borð í hér á landi og reglulega eru menn teknir við að reyna að koma sér úr landi með þessum hætti.

„Þetta eru helst Ameríkuskipin. Þá er ágangurinn mestur,“ sagði Ólafur um hvaða skip helst væri reynt að smygla sér um borð í.

„Við erum búin að gera það sem við getum í þeim málum sem snúa að okkur. Það hefur mikið verið rætt um hvernig megi auka öryggið en við höfum bara vissar heimildir og getum bara gert það inni á okkar svæðum. Ef við förum að gera eitthvað utan okkar svæða þá eru allskyns stofnanir sem koma að því. Það er lögreglan og fleiri sem koma að slíkum málum. Við megum til dæmis ekki setja myndavélar utan okkar svæðis, það varðar persónuvernd og fleira,“ sagði Ólafur um öryggismálin og hvort verið væri að endurskoða þau.

Ólafur segir að þegar skip á leið til Ameríku séu í höfninni þá séu þeir með fleiri aðila við eftirlitsstörf og á tánum. Hann hrósar lögreglunni þegar þessi mál koma upp: „Lögreglan hefur verið dugleg að koma mjög snöggt þegar við köllum þá til út af þessu. Ég get alveg trúað því að þeir séu mjög meðvitaðir um ástandið. Það tekur þá ekki nema tíu mínútur til korter að koma.“

Rangyrði að kalla þá hælisleitendur

„Svo er náttúrlega það að kalla þessa menn hælisleitendur, það er bara rangyrði. Þetta eru bara innbrotsþjófar. Menn sem eru að brjótast inn á svæðið. Þeir eru ekki að leita eftir hæli á Íslandi. Þeir eru að reyna að komast frá Íslandi. Þeir eyðileggja þetta orð, hælisleitandi, og koma bara óorði á hælisleitendur. Við tölum um þetta í dag sem innbrotsþjófa,“ sagði Ólafur.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert