Stoltur af tiltekt hjá Orkuveitunni

Jón Gnarr talar á morgun á Faroe Pride í Þórshöfn.
Jón Gnarr talar á morgun á Faroe Pride í Þórshöfn. Ómar Óskarsson

„Ég er til dæmis mjög stoltur af tiltekt hjá Orkuveitunni,“ sagði Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, aðspurður hverju hann væri stoltastur af í tíð sinni sem borgarstjóri hingað til, í viðtali hjá færeyska útvarpinu Kringvarp.

Jón er sem stendur í Færeyjum þar sem hann tekur m.a. þátt í fyrstu hátíðahöldum samkynhneigðra þar í landi, Faroe Pride, á morgun, laugardag. Mætti hann í viðtal hjá Dagmar Joensen-Næs fyrr í dag þar sem m.a. farið var yfir tilgang heimsóknar hans til Færeyja, tíð hans sem borgarstjóra, málefni samkynhneigðra o.fl.

Listamaður sem stjórnmálamaður

Auk þess að vera stoltur af tiltekt í rekstri Orkuveitunnar sagðist Jón einnig stoltur af að hafa reynt að leggja sig fram um að koma fólki á óvart og taka þátt í ýmsum ólíkum viðburðum í tíð sinni sem borgarstjóri. Þá hefði hann lært margt á þessum tíma, sem hefði verið erfiður í upphafi enda mikið verk að vinna. Fyrst og síðast væri hann hins vegar listamaður. „Nema hvað sem stendur er ég listamaður sem er líka stjórnmálamaður,“ sagði hann.

Hvort Jón óttaðist að enda sem hinn hefðbundni stjórnmálamaður sem hann vill ekki vera sagði hann svo ekki vera. Bætti hann við hve mikilvægt það væri að hafa haft færi á að vekja áhuga fólks, ekki síst unga fólksins, á að taka þátt í umræðunni og láta sig varða samfélagið. 

Mikilvægi borgar- og bæjarhátíða

Aðspurður um góð ráð fyrir Hedin Mortensen, bæjarstjóra Þórshafnar, til að gera lífið skemmtilegra að hætti Besta flokksins í Þórshöfn benti Jón á mikilvægi hátíða og viðburða fyrir samfélagið. Benti hann á að vinsældir hátíða á borð við G-festivalið, Ólafsvökuna og nú Faroe Pride í Færeyjum færu sífellt vaxandi og mikilvægt væri að hlúa vel að þeim og byggja upp, með það fyrir sjónum að laða að erlenda aðila o.s.frv. Benti hann á að slíkt hefði gefið góða raun á Íslandi.

Hátíð fjölbreytileikans

Auk þess að heimsækja Færeyjar til að stuðla að frekari samvinnu á milli Þórshafnar og Reykjavíkurborgar sagðist Jón hafa heyrt af því að samkynhneigðir ættu fremur erfitt uppdráttar þar í landi miðað við á Íslandi. Því hefði hann viljað taka þátt í Faroe Pride og sýna baráttunni stuðning. Benti hann á að Gay Pride á Íslandi væri orðin ein stærsta fjölskylduhátíðin á landinu þar sem fólk á öllum aldri kæmi saman og fagnaði fjölbreytileika lífsins. „Við erum í rauninni öll svolítið öðruvísi og þarna fögnum við því að vera þannig,“ sagði hann.

Aðspurður hvað hann hygðist segja við samkynhneigða í Færeyjum í ræðu sinni við hátíðahöldin á morgun sagðist hann ætla að tala um þýðingu hátíðahaldanna þar í landi og mikilvægi, ásamt því að segja frá því hvernig hátíðahöldin hafa þróast í Reykjavík. „Síðan mun ég tala um stuðning og reyna að gefa þeim smáklapp á bakið,“ sagði Jón.

Hægt er að hlusta á viðtalið við borgarstjórann í heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert