Rangstæð skilti fá rauða spjaldið

Gangstéttar miðborgarinnar eru land Reykjavíkurborgar og þar má ekki setja …
Gangstéttar miðborgarinnar eru land Reykjavíkurborgar og þar má ekki setja skilti nema með sérstöku leyfi. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að auglýsingaskilti á gangstéttum hindri vegfarendur og hafa ábendingar þess efnis borist Reykjavíkurborg í auknum mæli. Fram kemur í tilkynningu að til að tryggja greiðar gönguleiðir og draga úr slysahættu verði gert átak í að fjarlægja rangstæð skilti.

Átakið hefst á morgun á vegum byggingafulltrúans í Reykjavík.

Í tilkynningunni segir ennfremur, að Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra, sé meðal þeirra sem bent hafi á hættuna sem illa staðsett auglýsingaskilti geti haft í för með sér. Haft er eftir Rósu Maríu Hjörvar, aðgengisfulltrúa Blindrafélagsins, að  sérhvern dag lendi félagsmenn í vandræðum með að komast leiðar sinnar og þar séu það auglýsingaskiltin sem í orðsins fyllstu merkingu bregði fæti fyrir þau.

„Í samþykkt Reykjavíkurborgar um skilti í lögsögu Reykjavíkur er skýrt tekið fram að ekki er heimilt að setja skilti á gangstétt og annað land í eigu Reykjavíkurborgar (sjá grein 6.6.5.). Fyrirtæki sem vilja koma fyrir þjónustuskiltum á eigin lóð eða í sinni starfsstöð er það heimilt að settum skilyrðum í samþykktinni,“ segir í tilkynningunni.

„Gangstéttar miðborgarinnar eru land Reykjavíkurborgar og þar má ekki setja skilti nema með sérstöku leyfi. Reykjavíkurborg hefur einnig gefið út leiðbeiningar til rekstraraðila og dreift til þeirra. Bæklingurinn heitir „Hvernig get ég innréttað svæðið fyrir framan veitingastaðinn eða verslunina mína?” og verður að sjálfsögðu horft til þeirra leiðbeininga um ákvörðun um hvort skilti eru fjarlægð eða fá að vera. Eigendur skilta sem verða fjarlægð geta vitjað þeirra á hverfastöð þar sem þau verða í vörslu í 30 daga áður en þeim verður fargað,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert