Blóðbankann skortir blóð

Blóðbankinn þarf um 70 blóðgjafa á dag.
Blóðbankinn þarf um 70 blóðgjafa á dag. mbl.is/Ómar

„Við erum að reyna að fá auknar birgðir inn fyrir helgina,“ segir Sigríður Ósk Lárusdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Blóðbankanum, en starfsfólk bankans biðlar til fólks að koma og gefa blóð áður en það fer úr bænum.

Mikilvægt er að Blóðbankinn eigi góðar birgðir nú þegar ein stærsta ferðahelgi ársins er í þann mund að hefjast.

„Þegar svona stór ferðahelgi er framundan er mikilvægt að eiga nægar birgðir,“ segir Sigríður Ósk og bendir á að vöntun sé á nær öllum blóðflokkum en sérstaklega er þörf á O mínus, því það er neyðarblóð sem gengur í alla sem verða fyrir blóðmissi.

„Það er sá blóðflokkur sem við leggjum mesta áherslu á.“

Algengasti blóðflokkurinn á Íslandi er O plús en yfir fimmtíu prósent þjóðarinnar eru í O-blóðflokknum.

Til að mæta þörfum samfélagsins þarf Blóðbankinn um 16.000 blóðgjafa á ári eða 70 blóðgjafa á dag, en yfir sumartímann fækkar oft blóðgjöfum.

Haft er samband við 8-10.000 virka blóðgjafa á ári hverju og gefa þeir u.þ.b. 15.000 blóðgjafir.

Sigríður Ósk segir það almennt ganga vel að fá fólk til að gefa blóð. Í gær var hins vegar mjög rólegt og er fólk því hvatt til að mæta fyrir helgina.

Blóðbankinn er á Snorrabraut 60 en á heimasíðu bankans má finna allar frekari upplýsingar um blóðgjafir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert