Kýr auglýsa bjór í Landeyjum

Þær vekja sérstaka athygli þessa dagana kýrnar á Miðhjáleigu í Austur-Landeyjum. Kýrnar eru „skreyttar“ með vörumerki Bola-bjórsins sem Ölgerðin framleiðir. Bærinn stendur við veginn niður á Bakka í Austur-Landeyjum þaðan sem leið margra liggur til Vestmannaeyja nú um helgina og því eru kýrnar góð lifandi auglýsing.

„Það var nú bara haft samband frá auglýsingastofu um hvort þeir mættu vera með lifandi auglýsingu hérna um helgina,“ sagði Bertha Guðrún Kvaran, bóndi á Miðhjáleigu, sem á kýrnar.

„Þetta eru geldar kýr sem eru hérna úti. Þetta eru ekki mjólkurkýrnar, en stutt í að ein beri,“ sagði Bertha.

Og hvernig losna kýrnar svo við þetta?

„Þetta rignir bara af. Þetta er náttúrulegt litarefni sem rignir af. Þetta er nú farið að mást aðeins af þeim.“

Kýrnar fá kraftmeira fóður í laun fyrir vinnuna

 Er þetta arðbærara en mjólkin?

„Það er góð aukabúgrein að auglýsa þetta og kýrnar njóta góðs af því þær fá betra gras en þær hefðu að öðrum kosti fengið á meðan þær rölta þarna um og vekja athygli,“ sagði Bertha.

Uppátækið hefur vakið talsverða athygli og stoppa margir á leiðinni til að taka myndir sem síðan rata inn á samskiptamiðla, enda ekki á hverjum degi sem kýr eru notaðar til að auglýsa bjór, en kannski við hæfi þar sem um Bola-bjór er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert