Bændur harðorðir vegna Almenninga

Bændur undir Eyjafjöllum segja Skógræktina hafa tekið niður girðingu milli …
Bændur undir Eyjafjöllum segja Skógræktina hafa tekið niður girðingu milli Þórsmerkur og Almenninga án samráðs við þá. mbl.is

„Landgræðsla ríkisins og umhverfisráðuneytið [eru] staðráðin að heimila bændum ekki að nýta rétt sinn og það þrátt fyrir að bændur hafi unnið að uppgræðslu árum saman til að koma landinu í beitarhæft ástand og hafa aldrei gert ráð fyrir öðru en að nýta afréttinn nema með hóflegum hætti,“ segir í ályktun sem félag afréttareigenda á Almenningum hefur sent frá sér.

Segir í ályktuninni að gróðurfar á Rangárvallaafrétti og Fljótshlíðarafrétti sé álíka og á Almenningum og að þar sé látið átölulaust þótt bændur nýti þá beit. „Svo virðist sem jafnræði sé ekki haft að leiðarljósi í þeirri stjórnsýslu sem stofnanir þessar vinna eftir og á köflum virðist stjórnsýslan byggjast á geðþóttaákvörðunum,“ segir í ályktunni.

Tilkynntu árið 2009 að þeir hygðust hefja upprekstur á ný

Árið 2009 tilkynntu bændur til Skógræktar ríkisins, Héraðsnefndar Rangæinga, sveitarstjórnar Rangárþings eystra og Landgræðslu ríkisins að þeir hygðust hefja upprekstur fjár inn á Almenninga í hóflegum mæli.

Árin 2010 og 2011 frestuðu bændur þó upprekstri að beiðni yfirvalda, en síðara árið féllust þeir á að taka þátt í úttekt gróðurs með tilliti til beitarþols.

„Úttekt þessi var síðan gerð án þess að bændur kæmu þar að málum nema að mjög takmörkuðu leyti, m.a. var ekki leitað eftir skoðunum þeirra. Þessi úttekt fól ekki í sér samanburð við aðra afrétti í nágrenninu m.a. Fljótshlíðarafrétt, sem er í seilingarfjarlægð frá Almenningum, og hvar fé er rekið til beitar,“ segir í ályktuninni.

Skógrækt ríkisins ber að halda við girðingu samkvæmt samningi

Skógrækt ríkisins er gagnrýnd í ályktun bændanna, en þeir segja að hún hafi átt, samkvæmt samningi frá 1931, að sjá um að girða af Þórsmörk og segir í ályktuninni: „Árið 1989 var uppi ágæt girðing í Þórsmörk sem varði hana ágangi beitar, en árið 1990 var girðing þessi tekin niður af Skógræktinni án þess að hafa nokkurt samráð um það við bændur, en hluti af girðingunni var í eigu bænda. Skógræktin skildi við upprúllaðar girðingar og girðingarleifar í hirðuleysi inni í Þórsmörk og er svo enn eftir rúm 20 ár.“

Bændur segja að í umræðunni um upprekstur á Almenninga hafi gleymst að bændur sjálfir hafi sinnt uppgræðslu á svæðinu með ærinni fyrirhöfn. Þá segir að það sé rétt að gróður á svæðinu hafi að hluta farið illa eftir Eyjafjallajökuls- og Grímsvatnagos, en að hann hafi náð sér að mestu furðu fljótt.

Fjármunum vegna eldgosa ekki verið varið í landbætur á Almenningum

„Ekki hafa bændur orðið varir við að nokkuð af því fjármagni sem veitt var til endurbóta eftir gos hafi komið sérstaklega til uppgræðslu á svæðinu og Landgræðslan ekki að neinu leyti haft forgöngu um landbótastarf á Almenningum né öðrum svæðum sem eru í afréttareigu bænda s.s. Stakksholt og Steinsholt, sem er mjög illa farið.“

Sveitarstjórn Rangárþings eystra ákvað á fundi sínum þann 20. júlí síðastliðinn að láta gera ítölumat fyrir afréttinn og meta hvað hann myndi þola, beitarlega séð. Jafnframt var ákveðið að heimila upprekstur á Almenninga, enda var slíkt í samræmi við álit Gróðurverndarnefndar Rangárvallasýslu.

Harma að bændum sé ekki treyst til að nýta landið skynsamlega

„Bændur fagna því að gefið hafi verið leyfi til upprekstrar, en harma jafnframt að bændum sé ekki sjálfum treyst fyrir að nýta landið skynsamlega heldur þurfi ítölu til og er því skiljanleg afstaða þeirra bænda, sem þegar hafa rekið fé á afréttinn.

Þá er jafnframt harmað það ójafnræði sem í þessari ákvörðun sveitarstjórnar felst því aðrir afréttir sveitarfélagsins eru ekki undir þessar takmarkanir settir.

Bændur harma þau viðhorf og upphrópanir sem fram  hafa komið í fjölmiðlum og víðar, á þá vegu að þeir séu hryðjuverkamenn, landníðingar o.s.frv.  Það er bændum, sem og öllum, hagsmunir að fara vel með eigur sínar hverju nafni sem þær nefnast, það þekkja bændur mæta vel,“ segir í ályktun bænda undir Eyjafjöllum.

Ályktunina í heild má lesa hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert