Rothögg fyrir ferðaþjónustuna

Verði virðisaukaskattur á gistingu hækkaður úr 7% í 25,5%, eins og fram hefur komið í fréttum, er það rothögg fyrir ferðaþjónustuna. Hækkunin myndi skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir svarta atvinnustarfsemi. Þetta segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Við höfum ekki fengið þetta staðfest frá ráðherra, en við höfum verið boðuð á fund sem verður næstu daga,“ segir Erna. „Það var ekkert samráð haft við okkur, engar tilkynningar, ekki neitt. Þetta er auðvitað rothögg. Hvernig halda menn að það sé hægt að halda sjó á alþjóðlegum samkeppnismarkaði í ferðaþjónustu, ef við tilkynnum um 17% hækkun á gistingu vegna skattahækkana? “

Erna segir að gangi hækkunin í gegn, þá hafi það í för með sér hrun fyrir ferðaþjónustuna, einkum þann hluta sem snýr að ráðstefnugestum. „Það er gríðarlega mikil samkeppni um ráðstefnugesti. Við ætluðum einmitt að fara að gefa í hvað varðar ráðstefnur. Við erum komin með Hörpu og manni skilst að það veiti nú ekkert af því að fjölga ráðstefnugestum. En þetta er ekki alveg leiðin til þess: að skattleggja okkur út af markaðnum.“

Erna segir að í 90% allra Evrópulanda sé gisting í lægra virðisaukaskattsþrepi en önnur þjónusta og markmiðið með því sé að fjölga ferðamönnum. „Öll lönd í heimi eru að berjast um að fá erlenda ferðamenn, ekki síst funda -og ráðstefnugesti.“

„Ég sé fyrir mér mikil áhrif, ekki síst hvað varðar svarta atvinnustarfsemi. Það segir sig sjálft að samkeppnisstaða þess, sem er að selja gistingu án virðisaukaskatts vænkast mjög, ef þeir sem fara að lögum og reglum þurfa að hækka verðið hjá sér um 17%.“

Erna Hauksdóttir
Erna Hauksdóttir mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert