Vilja bílastæði og hringstiga í Þríhnúkagíg

Þríhnúkagígur er einn af 27 mögnuðustu stöðum jarðar samkvæmt greinarhöfundi …
Þríhnúkagígur er einn af 27 mögnuðustu stöðum jarðar samkvæmt greinarhöfundi CNN. Kristjan Maack

Samkvæmt frummatsskýrslu á umhverfismati vegna uppbyggingar aðstöðu ferðamanna við Þríhnúkagíg eru tveir þættir sem verða fyrir mestum neikvæðum áhrifum. Það eru jarðmyndanir og landslag.

Framkvæmdin felur í sér að leggja 2,7 km aðkomuveg frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum að Þríhnúkum svo gestir eigi auðvelt með aðkomu að gígnum. Við gíginn verður komið fyrir bílastæði og mun göngustígur leiða fólk inn í þjónustubyggingu sem verður neðanjarðar. Frá þjónustubyggingunni verða um 300 m löng jarðgöng, boruð inn að gíghvelfingu Þríhnúkagígs og við enda ganganna verður komið fyrir útsýnissvölum þar sem gestir geta virt fyrir sér gíghvelfinguna. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að hringstigi liggi frá svölunum niður á botn gígsins. Lagðir verða göngustígar um nánasta umhverfi Þríhnúka til að stýra umferð að áhugaverðum stöðum.

Neikvæð áhrif á jarðmyndanir og landslag

Með jarðmyndunum er átt við það hraun sem umlykur svæðið umhverfis Þríhnúkagíg. Ekki er talið að fíngerðar myndanir hraunsins inni í gígnum sjálfum verði fyrir áhrifum að raski. Fremur er átt við nútímahraun sem liggur við og að gígnum. Raskið mun tilkoma vegna lagningar aðkomuvegar og bílastæðis. Talið er að rask á jarðhrauni verði á bilinu 2-4 hektarar umhverfis gíginn. Að lokum er dregið saman með þessum orðum: „Neikvæð áhrif þess að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan fyrir almenning verði óveruleg til talsvert neikvæð á jarðmyndanir.“

Landslag og ásýnd munu einnig verða fyrir neikvæðum áhrifum segir í skýrslunni. Þar er tiltekið að nánasta umhverfi Þríhnúka sé lítt raskað. Jafnframt kemur fram að áhrif framkvæmdar á landslag felist einkum í því að aðkomuvegur muni kljúfa sléttuna austur af Þríhnúkum en þar er nú að mestu ósnortið svæði. Að lokum segir um þátt landslags og ásýndar: „Áhrif á landslag eru varanleg og að mestu óafturkræf og verða talsvert neikvæð.“

Niðurstöður

Níu þættir lágu til grundvallar matinu. En það voru áhrif á jarðmyndanir, grunnvatn, umferð og umferðaröryggi, útivist, fornleifar, gróður, fugla, landslag og ásýnd auk þess sem samlegðaráhrif af framkvæmdunum voru könnuð. Í niðurstöðum segir:

„Þeir umhverfisþættir sem verða fyrir mestum beinum neikvæðum áhrifum vegna uppbyggingar áfangastaðar við Þríhnúkagíg eru jarðmyndanir og landslag. Óvissa er um úrbætur á aðkomuvegum að Bláfjöllum en slíkar úrbætur hafa talsvert um það að segja hver áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verða á umferðaröryggi og mögulega á grunnvatn, ekki síst ímynd vatnsverndarsvæðisins. Áhrif á þessa umhverfisþætti gætu orðið talsvert neikvæð verði ekki ráðist í úrbætur á aðkomuvegum áður en veruleg aukning verður í umferð.“

Skýrslan var unnin af ráðgjafarfyrirtækinu VSÓ ráðgjöf. Hana má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert