Hver skattprósenta getur skipt sköpum

Hugmyndir stjórnvalda um hærri virðisaukaskatt á gistingu leggjast afar illa …
Hugmyndir stjórnvalda um hærri virðisaukaskatt á gistingu leggjast afar illa í ferðaþjónustuna. Það geta ekki allir gist í tjaldi. mbl.is/RAX

Hugmyndir eru uppi um að hækka virðisaukaskatt á gistingu. Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu segja slíka hækkun jafngilda rothöggi fyrir ferðaþjónustu í landinu auk þess sem hún komi til með að ýta undir svarta starfsemi. Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra munu í dag, föstudag, funda með fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar um málið.

Fjármálaráðherra vildi ekki tjá sig um hugsanlega skattahækkun fyrr en eftir fundinn og stjórnvöld hafa látið í ljós að engin ákvörðun verði tekin nema í samvinnu við hagsmunaaðila. Samtök ferðaþjónustunnar segja að lítil samvinna hafi verið hingað til og ótrúlegt sé að stjórnvöld ætli að leggja skattahækkun á grein sem sé á uppleið.

Nú er virðisaukaskattur á gistingu í lægra skattþrepinu, eða 7%, sem er undantekning frá efra skattþrepi virðisaukaskatts sem er 25,5%. Það er m.a. gert til að lækka gistikostnað og laða að ferðamenn sem koma með erlendan gjaldeyri inn í landið. Verði virðisaukaskattur á gistingu hækkaður verður hann því 25,5% sem jafngildir 17,3% verðhækkun samkvæmt Samtökum ferðaþjónustunnar. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir tekjur í ferðaþjónustu hafa vaxið gríðarlega. „Það má búast við að það séu í kringum 200 milljarðar í erlendum gjaldeyri sem koma inn í landið á þessu ári og skatttekjur eru hátt í 20 milljarðar. Ætla menn að fara að hrista þennan bát?“ spyr Erna.

Með því hæsta sem þekkist

Erna segir engan markað geta tekið á móti slíkri hækkun og hún komi sér afar illa fyrir samkeppnishæfni Íslands. „Það þarf svona 18 mánaða fyrirvara ef það á að hækka skatt á ferðaþjónustuna. Ég tala nú ekki um varðandi ráðstefnur og hópferðir en það er búið að ganga frá samningum langt fram í tímann,“ segir Erna. Hún segir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu sé í lægra skattþrepinu í langflestum löndum og ef hann verði hækkaður upp í 25,5% á Íslandi sé það með því hæsta sem gerist í heiminum. „Það getur munað einni prósentu hvort Ísland nær t.d. einhverri ráðstefnu hingað til lands eða ekki,“ segir Erna. Baráttan um ferðamenn sé mikil, ekki síst á veturna. Í því sambandi bendir Erna á að ríkisstjórnin leggi nú til peninga í verkefnið „Ísland allt árið“ sem ætlað er að kynna Ísland sem áfangastað á veturna. „Það er mjög skrítið að veita pening með vinstri hendinni og veita svo rothögg með hægri hendinni. Það er mjög mikil samkeppni um vetrartímann, það vilja allir laga árstíðarsveiflur hjá sér, við erum ekki eina landið,“ segir Erna.

Samtök ferðaþjónustunnar segja skattahækkun geta haft áhrif á svarta starfsemi á kostnað annarra aðila.

„Við sýndum fram á það í fyrra að það voru fleiri leyfislaus rúm á höfuðborgarsvæðinu heldur en á Grand hótel og Hilton samanlagt. Það hvarflar ekki að mér að þeir sem ekki sækja um leyfi fyrir fyrirtækjum sínum borgi mikla skatta enda hafa rannsóknir ríkisskattstjóra sýnt fram á að það þrífst svört atvinnustarfsemi í þessari grein, eins og svo sem mörgum öðrum.“

Margir starfa án leyfa

Alþingi samþykkti í fyrra lög um gistináttagjald sem kveða á um að greiða skuli 100 krónur fyrir hverja gistinótt á hótelum en 50 krónur fyrir gistingu á öðrum gististöðum. Gjaldið á að fara í viðhald ferðamannastaða. Það mun ekki hafa skilað áætluðum tekjum og því hefur hækkun virðisaukaskatts verið nefnd til að koma til móts við það. „Ef mönnum hefur ekki tekist að innheimta gjaldið er það náttúrlega bara mál stjórnvalda. Við vöruðum við því strax í upphafi að þetta yrði mjög illinnheimtanlegt,“ segir Erna Hauksdóttir hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Hún segir gríðarlegan fjölda aðila starfrækja gistiþjónustu um allt land án leyfa og þeir greiði því engin gjöld.

Erlendir ferðamenn.
Erlendir ferðamenn. Morgunblaðið/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert