Tollaflokkur iPod Touch endurmetinn

Deilt er um hvort iPod Touch skuli flokkast í tollinum …
Deilt er um hvort iPod Touch skuli flokkast í tollinum sem afspilunarbúnaður eða gagnavinnsluvél. Ljósmynd/Apple

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykajvíkur þar sem fallist var á beiðni Skakkaturns ehf, sem flytur inn Apple vörur, um að fenginn yrði dómkvaddur matsmaður til að meta hvort iPod touch sé í réttum tollaflokki.

Deilt hefur verið um hvort iPod Touch skuli flokkast sem lófatölva eða tónlistarspilari. Tollstjóri hefur sett iPod Touch í síðarnefnda flokkinn, sem þýðir að tollar og vörugjöld sem lögð eru á hann við innflutning nema 32,5%. Sambærileg gjöld eru ekki lögð á tölvur. 

Notað eins og hefðbundin lófatölva

Fyrr á þessu ári stefndi Skakkiturninn íslenska ríkinu vegna þessarar tollaflokkunar og fór fram á það í febrúar 2012 að óvilhallur matsmaður yrði fenginn til að meta hvort iPad touch uppfylli skilyrði til að vera flokkaður sem gagnavinnsluvél. M.a. er bent á það að varan sé notuð eins og hefðbundin lófatölva, þ.e. til að vafra á netinu, spila tölvuleiki og nota sem síma, auk þess að spila tónlist og kvikmyndir. 

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á beiðni Skakkaturnsins í maí, en íslenska ríkið kærði þann úrskurð til Hæstarétts sem nú hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms um að umbeðin dómskvaðning matsmanna skuli fara fram. Hæstiréttur gerir jafnframt íslenska ríkinu að greiða Skakkaturni ehf. 200.000 krónur í kærumálskostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert