Tímabært að afnema afslátt

Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra.
Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra. Ómar Óskarsson

Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra segir að tími sé til kominn að afnema þann afslátt af virðisaukaskatti sem hótel- og gistiþjónusta hefur notið undanfarin ár. Ferðaþjónustan hafi tekið mikið stökk og hún eigi að geta vaxið á almennum forsendum, án afsláttar.

„Ég held að við þurfum að horfa á málið í heild sinni. Núna er ferðaþjónustan búin að taka mikið stökk, hún er um 7% af vergri landsframleiðslu. Þetta er ein af stoðunum í samfélaginu og þess vegna er skynsamlegt að greinin vaxi á raunsæjum grunni, á almennum forsendum en ekki á grundvelli afsláttar,“ segir Oddný.

Oddný fundaði í dag með Samtökum ferðaþjónustunnar, þar sem kynntar voru hugmyndir stjórnvalda um hækkun á virðisaukaskatti á gistingu. Núna er virðisaukaskattur á gistingu 7%, en fjármálaráðuneytið leggur til að hann hækki upp í 25,5%.

Á að vera í almennu skattþrepi

„Hótel- og gistiþjónusta fluttist úr 14% þrepinu niður í 7% í mars árið 2007. Þegar til framtíðar er litið, þá held ég að það sé rétt að þessi þjónusta sé í almenna skattþrepinu en sé ekki umbunað umfram aðrar stórar atvinnugreinar. Það að ein af okkar meginstoðum í samfélaginu sé á ríkisstyrk er kannski ekki alveg heppilegt til framtíðar litið,“ segir Oddný. 

Nú er það vera býsna algengt fyrirkomulag í Evrópu og það gefst vel, að sögn ferðaþjónustunnar, greiddur sé lægri virðisaukaskattur af gistingu en ýmsu öðru. Væri ekki hægt að líta til þess við þessa ákvörðun? 

„Við erum búin að skoða þetta allt saman. Það er ekki hægt að horfa einangrað á virðisaukaskattinn, það þarf líka að horfa á tekjuskattinn, sem er mjög lágur hér á landi. Hótel- og gistiþjónusta býr við mjög gott umhverfi hérna, með 7% virðisaukaskatt og 20% tekjuskatt. Ef við horfum til nágrannalandanna, þá er tekjuskatturinn mun hærri. En það er rétt að það eru mörg lönd með hótel- og gistiþjónustu í lægra skattþrepi. Ferðaþjónustan er um 3% af vergri landsframleiðslu víða í nágrannalöndunum, en við erum komin upp í 7%,“ segir Oddný.

Hefur áhyggjur af svartri atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu

Oddný segir að undanþágur frá virðisaukaskatti hafi verið skoðaðar og afnumdar á undanförnum árum, en ekki hafi þótt stætt á að breyta fyrirkomulaginu í ferðaþjónustunni fyrr en nú.

„Við erum auðvitað fyrst og fremst að ná tekjum í ríkissjóð. Þegar við fórum í allar stóru aðgerðirnar 2009, þá fórum við að horfa á allar þær undanþágur sem við erum að gefa, hvort þær væru nauðsynlegar. Þá vildum við ekki taka þessar ívilnanir af hótel- og gistiþjónustu, þá var umhverfið ótryggt. En núna er mikill vöxtur og sjálfsagt að horfa í þessa átt.“

Hefurðu engar áhyggjur af því að þessi breyting ýti undir svarta atvinnustarfsemi í greininni? „Jú, en ég hef reyndar áhyggjur af svartri atvinnustarfsemi í greininni nú þegar, sem er umtalsverð. Við ræddum þetta á fundinum og ég mun setja á stofn starfshóp og óska eftir að hagsmunaaðilarnir taki þátt í því,“ segir Oddný.

Endurskoða þarf lög um ferðaþjónustu

Hún segir að endurskoða þurfi lög um ferðaþjónustu. „Við þurfum líka að fara yfir lagaumhverfi greinarinnar. Þar stangast ýmis atriði á sem þarf að samræma. Síðan þarf að finna út úr því hvernig hægt sé að auðvelda eftirlit með greininni. En þetta þyrftum við að gera, þó við værum ekki að hækka virðisaukaskattinn.“

Frétt mbl.is: Þetta eru okkur mikil vonbrigði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert