Snædrekinn við Íslandsstrendur

Kínverska rannsóknarskipið Snædrekinn við Akurey í Kollafirði.
Kínverska rannsóknarskipið Snædrekinn við Akurey í Kollafirði. mbl.is/Styrmir Kári

Kínverska rannsóknarskipið og ísbrjóturinn Snædrekinn liggur nú við Akurey í Kollafirði en skipið hefur að undanförnu verið við Íslandsstrendur við rannsóknir. Meðal þess sem hefur verið rannsakað er samanburður á loftslagsbreytingum í Kína og í Norður-Atlantshafi.

Rannsóknirnar hafa m.a. verið unnar í samvinnu við íslenska vísindamenn við Háskóla Íslands og tveir íslenskir vísindamenn, þau Egill Þór Níelsson gistifræðimaður við Heimskautastofnun Kína og Ingibjörg Jónsdóttir dósent við Háskóla Íslands, hafa verið og verða um borð í skipinu. Leiðangurinn er afar umfangsmikill og sem dæmi um það var athugunardufl sem vegur fimmtán og hálft tonn sett á flot í Noregssjó til rannsókna á hafi og veðri fyrr í mánuðinum.

Þorsteinn Gunnarsson, sérfræðingur hjá Rannís, segir leiðangurinn merkilegan fyrir margar sakir, til að mynda hafi verið náð í mikið af sýnum sem vísindamenn hér og í Kína munu vinna úr á næstunni. Á næsta ári mun kínverska heimskautastofnunin svo halda málstefnu um rannsóknir á norðurslóðum og gerir Þorsteinn ráð fyrir að öll Norðurlöndin taki þátt í henni.

Á leið sinni til baka mun skipið sigla þvert yfir norðurpólinn og verða þar með eitt fárra skipa sem það hafa gert.

Sögulegur leiðangur

Snædrekinn varð með leiðangri sínum til Íslands fyrsta kínverska skipið sem farið hefur í gegnum norðausturleiðina um Norður-Íshaf og heimsóknin í boði íslenskra stjórnvalda markar jafnframt fyrstu opinberu komu Snædrekans til norðurslóðaríkis. Þetta er þó fimmti leiðangur skipsins á norðurslóðir sem verður hér á landi í boði íslenskra stjórnvalda dagana 16.-20. ágúst en formleg komuathöfn verður á fimmtudaginn.

Í tilkynningu segir að leiðangurinn styrki vísindalegt norðurslóðasamstarf ríkjanna enn frekar, bæði í formi rannsókna á jarðfræði hafsbotnsins og efnafræði sjávar og andrúmslofts í íslenskri landhelgi ásamt því að lagt er til aukið samstarf á sviði félagsvísinda og í sameiginlegri norðurljósarannsóknarstöð.

Skipið verður opið almenningi laugardaginn 18. ágúst frá kl. 11-16 við Skarfabakka í Sundahöfn og á Akureyri mánudaginn 20. ágúst kl. 12:00-16:00 við Oddeyrarbryggju.

Háskóli Íslands og RANNÍS standa svo fyrir opnu málþingi um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Norður-Íshaf föstudaginn 17. ágúst kl. 8:30-13:00 í Háskóla Íslands. Málþingið verður sett af fulltrúa utanríkisráðherra og sendiherra Kína á Íslandi. Fyrirlesarar verða vísindamenn frá Kína og Íslandi sem fjalla um loftslagsbreytingar á norðurslóðum og almennt um norðurslóðastarf þjóðanna tveggja. Að loknum kynningum og umræðum verður skrifað undir viljayfirlýsingar um frekara vísindasamstarf á norðurslóðum og forseti Íslands flytur lokaávarp málþingsins.

Athugunardufl sett á flot í Noregshafi.
Athugunardufl sett á flot í Noregshafi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert