Ríkiskaup brutu á Iceland Express

Iceland Express
Iceland Express

Ríkiskaup brutu gegn lögum um opinber innkaup með því að velja tilboð Icelandair í útboði um flugsæti til og frá Íslandi. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála og að ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart Iceland Express sem átti hagkvæmasta tilboðið í útboðinu.

Ríkiskaup tóku báðum tilboðum og gerðu rammasamning við bæði félögin. Kærunefndin féllst ekki á að ógilda ætti eða endurtaka útboðið en segir í úrskurði sínum að ríkið sé skaðabótaskylt og að það skuli greiða Iceland Express málskostnað.

Í tilkynningu frá Iceland Express vegna málsins segir að ríkisstofnanir hafi átt sáralítil viðskipti við félagið á grundvelli samningsins. „Þá ákvað ríkið þrátt fyrir mótmæli Iceland Express að setja ekki skorður á punktasöfnun ríkisstarfsmanna með miðakaupum hjá Icelandair, sem skekkir mjög samkeppnisstöðuna. Ríkisstarfsmenn hafa þannig persónulegan ávinning af þessum óhagstæða samningi Ríkiskaupa við Icelandair.“

Félag atvinnurekenda hefur fyrir hönd Iceland Express óskað eftir gögnum frá Ríkiskaupum svo hægt sé að meta fjárhagstjón Iceland Express. Í framhaldinu verður óskað eftir viðræðum um fjárhæð bóta.

Mátti ekki semja við bæði félög

Í rökstuðningi Ríkiskaupa var því mótmælt að tilboð Icelandair hafi ekki verið fjárhagslega hagkvæmt. Þó svo Iceland Express hafi fengið fleiri stig verði að líta til einkunnagjafarinnar í heild.

Stigamunurinn skýrist af því að tilboð Iceland Express hafi fengið mun fleiri stig fyrir verð. Hins vegar verði að líta á aðra þætti, svo sem framboð og áreiðanleika sem séu mjög mikilvægir. Í þeim þáttum hafi Icelandair haft yfirburðastöðu.

Kærunefndin segir hins vegar í úrskurði sínum, að ekki sé hægt að vísa til þess að aðrar valforsendur en verð eigi að vega þungt. „Valforsendur vega eins þungt og vægið sem þeim var gefið í útboðsgögnum og af þeim var alveg ljóst að verð skipti höfuðmáli.“

Þá er vísað til þess að samkvæmt 1. gr. laga um opinber innkaup sé tilgangur þeirra að stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri. „Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. laganna skal velja það tilboð í opinberum innkaupum sem er hagkvæmast.“

Ennfremur segir að þó svo útboðsferli stuðli að því að koma á rammasamningi haggi það ekki skyldunni til að velja hagkvæmasta tilboðið. „Kaupendum í opinberum innkaupum er ekki veitt svigrúm til þess að taka hagkvæmasta tilboði en um leið öðru mun óhagstæðara tilboði og gera rammasamning við báða bjóðendur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert