Ósáttar við staðhæfingar

Umræða um ADHD hefur vakið mikil viðbrögð.
Umræða um ADHD hefur vakið mikil viðbrögð. Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Það er ekki spurning um að þarna eru einkenni sem eru mjög lík, þ.e. á milli ADHD og áfallastreituröskunar,“ segir Drífa Björk Guðmundsdóttir, doktor í klínískri sálfræði og stjórnarmaður í stjórn ADHD samtakanna.

Mikil umræða hefur skapast í kjölfar greinar sem birt var hér á vefnum þar sem uppeldisráðgjafi sagði börn hér á landi væru ranglega greind með athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) þegar aðrir orsakaþættir ættu í hlut.

„Okkur finnst eðlilegt að fagfólk fari ítarlega yfir sögu barns við greiningu, lagðir séu fyrir viðurkenndir matslistar og athugað hvort verið geti að um aðra hugsanlega aðra orsakaþætti sé að ræða. Það eru hins vegar sú staðhæfing að það sé oftar en ekki eitthvað annað undirliggjandi ADHD greiningum en ADHD og að fólk virðist ekki nógu meðvitað um að einkennin, sem ADHD er greint eftir, geta átt við hátt í 50 aðra kvilla, sem að okkar mati á ekki við rök að styðjast,“ segir Drífa.

Erfitt fyrir foreldra

Í kjölfar umfjöllunar mbl.is um málið fyrir helgi sendu ADHD samtökin frá sér yfirlýsingu þar sem samtökin töldu upplýsingarnar í fyrrnefndri grein ala á fordómum og síst til þess fallnar að auka skilning á ADHD. Segir Björk Þórarinsdóttir, formaður ADHD samtakanna, erfitt fyrir foreldra einstaklinga sem þjást af ADHD röskun að sitja undir slíkri umræðu. Að baki greiningar ADHD liggi yfirleitt mikil barátta fyrir aðstoð fyrir börnin sem í hlut eiga, auk þess sem farið hefur verið að ráðleggingum ýmissa lækna, sálfræðinga og annarra fagaðila áður en gripið er til lyfjagjafa eða annarra meðferðarúrræða.

Benda þær Drífa á að í verklagsreglum um greiningu og meðferð ADHD, sem Landlæknisembættið gaf út, er kveðið á um að við greiningu á ADHD skuli m.a. skoða hvort einkenni geti orsakast af öðrum geðrænum kvillum, hvort vísbendingar séu um
önnur þroskafrávik, auk þess sem rannsaka skuli hugsanlega fylgisjúkdóma eða önnur samhliða vandamál.

Fleiri þættir koma til

Gera Drífa og Björk einkum athugasemdir við áhersluna á áfallastreituröskun í fyrri greininni. „Barn sem er undir miklu álagi getur átt mjög erfitt með að einbeita sér,“ segir Drífa. „Til þess að það geti talist vera með áfallastreituröskun þarf fleira að koma til. Þarf til dæmis að vera hægt að tengja breytta hegðun við einhvern ákveðinn atburð í lífi. Börn með áfallastreitu endurupplifa áfallið í einhverju formi og það veldur þeim vanlíðan, þau forðast hugsanir, atburði, staði, eða fólk sem tengist eða minnir á það sem gerðist og eru alltaf eins og hengd upp á þráð (aukin árvekni).“ Eru það einkum einkenni úr þessum þriðja einkennaflokki sem geta minnt á ADHD að sögn Drífu. Þegar um ræðir ADHD hafa einkennin hins vegar alltaf verið til staðar, þótt yfirleitt greinist einstaklingarnir ekki fyrr en um eða eftir sjö ára aldurinn.

Gera samtökin athugasemdir við fleiri atriði sem nefnd eru í greininni sem mögulegar aðrar ástæður athyglisbrests og ofvirkni en ADHD röskun, svo sem skortur á bætiefnum, myglusveppir og þungmálmar í húsum. Telja samtökin óvarlega talað og um mikla einföldun að ræða þar sem vísindalegar rannsóknarniðurstöður hafi ekki sýnt fram á það á óyggjandi hátt að orsakatengsl séu þarna á milli.

Erfitt að greina

Eins og Ólafur Ó. Guðmundsson, yfirlæknir á Barna- og unglingageðdeild LSH (BUGL) sagði í samtali við mbl.is um sama mál hér er alls ekki einfalt að greina ADHD og oftar en ekki mikil skörun einkenna við aðrar raskanir. Ýmsir koma að greiningum barna á hér á landi þ.á.m. BUGL, Þjónustumiðstöðvar, og sérfræðilæknar og klínískir sálfræðingar á einkastofum. Benda Drífa og Björk á að milkil krafa gerð um um hæfi, menntun og sérþekkingu þeirra sem að slíkri vinnu koma. Þá benda þær á að enn strangari reglur gilda um hvaða læknar megi hefja lyfjameðferð við ADHD, en það eru eingöngu ákveðnir sérfræðilæknar.

Leiðbeiningar Landlæknis við greiningu skref í rétt átt

Fyrrnefndar leiðbeiningar Landlæknisembættisins frá í mars sl., um vinnulag, greiningu og meðferð við ADHD, voru hugsaðar til að auðvelda starfsfólki í heilbrigðisþjónustu að vinna að fyrrnefndum þáttum. Eru Drífa og Björk eru sammála um að þær hafi verið afar jákvætt skref en fram til þessa hafði skort á skýrari ramma yfir umrædda vinnu, þótt margir greiningaraðilar vinna að hluta til eða að öllu leyti í samræmi við hann nú þegar. Að sögn Drífu er afar mikilvægt að farið sé eftir þessum klínísku leiðbeiningum við greiningu ADHD.

Umburðarlyndi og skilningur markmiðið

„Þegar öllu er á botninn hvolft er markmiðið ávallt að stuðla að umburðarlyndi og skilningi,“ segir Björk um athugasemdir ADHD-samtakanna nú. „Þó svo að orsakir ADHD séu enn ekki að fullu þekktar, hafa vísindalegar rannsóknir sýnt fram á að um raunverulega taugaþroskaröskun með sterkan erfðaþátt er að ræða.“

Miklu skiptir því að umræðan afvegaleiðist ekki að sögn Bjarkar og áfram sé unnið að því að útrýma fordómum og auknum stuðningi innan samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert