Fjórir kærðir fyrir mótmæli

Snærós Sindradóttir.
Snærós Sindradóttir. mbl.is

Fjórir einstaklingar hafa verið kærðir fyrir mótmæli fyrir utan rússneska sendiráðið fyrr í sumar. Brot þeirra er talið varða við 95. gr. alm. hegningarlaga og varðar sektum eða fangelsi. Frá þessu greindi vefmiðillinn Smugan.

Snærós Sindradóttir er ein þeirra sem kærð eru. Henni var tilkynnt það af óeinkennisklæddum lögreglumanni þegar hún mótmælti fyrir utan sendiráðið í morgun. „Hann sagði einfaldlega, að það hefði verið tekin ákvörðun um það að kæra mig ásamt þremur öðrum fyrir brot á 95. grein. Ég er hins vegar ekki búin að fá skriflega kæru í hendurnar.“

Hún segist einnig hafa verið boðuð í skýrslutöku hjá lögreglu eftir helgina. Snærós segist vinna í því að fá sér lögmann vegna málsins. Hún segir að lögreglumaðurinn hafi einnig tekið fram að kæran hafi ekki komið frá rússneska sendiráðinu.

95. greinin hljóðar svo: „Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert