Opið fyrir umferð á Laugaveginum

Laugavegurinn er opinn fyrir umferð á ný.
Laugavegurinn er opinn fyrir umferð á ný. Mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Búið er að opna fyrir umferð á Laugaveginum frá Vatnsstíg á ný en lokað hefur verið fyrir umferð um götuna frá 17. júní síðastliðnum. Samkvæmt heimildum mbl.is er þó enn lokað fyrir umferð niður Laugaveg frá Klapparstíg.

„Við fögnum því ákaft. Lokunin hefur haft slæm áhrif á verslun við götuna, þá hafa fatlaðir og aldraðir átt erfitt með að komast að verslunum,“ segir Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda á Laugaveginum.

Björn Jón bendir einnig á að með þessu opnist aftur fyrir Laugavegsrúntinn. „Það er mjög mikilvægt að viðskiptavinir geti ekið niður Laugaveginn og litið í búðarglugga, sem eru mjög sterkur þáttur í menningu Reykjavíkur,“ segir Björn Jón.

Þá bendir Björn Jón á að samtökin hafi fyrir helgi sent frá sér ályktun þar sem þau lýsa því yfir að þau treysti því að borgaryfirvöld fari ekki út í frekari tilraunir af þessu tagi í ljósi þess hversu illa hefur til tekist. Þau vænti þess að borgaryfirvöld muni í framtíðinni eiga gott samstarf við kaupmenn við götuna sem hafa margir hverjir 40-50 ára reynslu af verslunarrekstri og hafa reynst sannspáir um flest varðandi þróun miðborgarinnar.

Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg.
Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert