Fóru ekki eftir neyðarlögum

Víglundur Þorsteinsson og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Víglundur Þorsteinsson og Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn

Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár, segir að ríkisstjórnin hafi ekki farið eftir reglum neyðarlaga sem sett voru í október 2008. Þetta hafi stjórnin gert án þess að afla sér umboðs frá Alþingi eða nýrrar lagaheimildar.

Víglundur hefur í rúmt ár reynt að afla sér upplýsinga um þá samninga sem gerðir voru um yfirfærslu lána frá gömlu bönkunum yfir til nýju bankanna. Hann segir að ástæðan fyrir þessu sé sú að í mars 2011 birti fjármálaráðherra skýrslu um þessi mál sem Víglundur segir að lýsi atburðarás sem ekki sé í samhengi við reglur neyðarlaganna. Hann segir að sér hafi gengið illa að fá umbeðin gögn því fjármálaráðuneytið hafi neitað að afhenda gögnin. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi hins vegar veitt honum takmarkaðan aðgang að gögnunum.

Fórnuðu hagsmunum heimila og fyrirtækja

Víglundur bendir á að neyðarlögin hafi kveðið á um að færa ætti útlán viðskiptavina bankanna yfir til nýju bankanna „á bókfærðu verði að teknu tilliti til áætlaðra afskrifta einstakra útlána.“ Víglundur segir að núverandi ríkisstjórn hafi á fundi sínum 3. mars 2009 ákveðið að hverfa frá aðgerðum sem grundvölluðust á neyðarlögunum. Með þessu hafi verið horfið frá „þeirri skjaldborg“ sem neyðarlögin hafi reist. Víglundur segir að ákveðið hafi verið að fórna hagsmunum íslenskra heimila og fyrirtækja í þeim tilgangi að greiða fyrir framgang ESB-umsóknar Íslands til að friðmælast við Breta og Hollendinga vegna Icesave.

Þegar gengið var frá uppgjöri milli nýju og gömlu bankanna var staða gamla Kaupþings gagnvart nýja Kaupþingi miklu verri en staða hinna gömlu bankanna. Skilanefnd Kaupþings skuldaði nefnilega bankanum 38 milljarða en í hinum bönkunum var staðan þannig að nýju bankarnir skulduðu þeim gömlu.

BM Vallá á „veiðilista“

Víglundur vitnar í skýrslu fjármálaráðherra frá mars á síðasta ári, en hann segir að í henni megi lesa lýsingu á því hvernig íslenska ríkið afhenti skilanefnd Kaupþings, sem fulltrúa erlendra kröfuhafa, nýja bankann og gaf þeim veiðileyfi á skuldara nýja bankans til að standa undir hallanum sem skilanefndin var í. Víglundur segir að það segi sig sjálft að til þess að hafa einhvern árangur hafi ekki verið neitt jafnræði gagnvart skuldurum heldur hafi verið sótt að þeim sem „eitthvert slátur“ var í; einstaklingum jafnt sem fyrirtækjum.

Víglundur segir að í skýrslu fjármálaráðherra komi fram að útbúinn hafi verið listi yfir skuldara sem vinna megi á, eins konar „veiðilisti“. Hann segist hafa fengið staðfest hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála að sitt fyrirtæki, BM Vallá, hafi verið á þessum lista.

Gagnrýna stjórnvöld harðlega

Víglundur og Sigurður G. Guðjónsson hrl. gagnrýna harðlega verklag stjórnvalda í kjölfar efnahagshrunsins og starfsaðferðir Arion banka við yfirtöku BM Vallár. Á blaðamannafundi í dag lögðu þeir fram gögn sem þeir segja benda til að ráðherrar, einstakir starfsmenn nýju bankanna og skilanefndanna hafi gerst brotlegir við ýmis ákvæði íslenskra laga sem refsingar eru lagðar við.

Víglundur segir að samhliða því að semja við Breta og Hollendinga um Icesave hafi ríkisstjórnin samið við skilanefndir Kaupþings og Glitnis um að þær tækju við ríkisbönkunum, Arion banka og Íslandsbanka. Ríkisstjórnin hafi einkavætt bankana án lagaheimildar og lagt þeim til áhættufé án lagaheimildar. Alþingi hafi aldrei verið upplýst um þetta ferli á meðan á því stóð. Heimild til að undirrita þessa samninga, sem löngu var búið að undirrita, hafi verið lætt inn í bandorm sem samþykktur var á Alþingi að kvöldi Þorláksmessu árið 2009. Alþingi hafi aldrei fengið að sjá þessa samninga.

Víglundur ætlar að birta öll gögn sem hann hefur aflað sér um þessi mál á netinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert