Rekstrarkostnaður Seðlabankans hækkar

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rekstur Seðlabankans kostaði rúma 2,3 milljarða á síðasta ári. Rekstrarkostnaðurinn hækkaði um 400 milljónir milli ára.

Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, sem birt var í dag.

Þar segir að rekstrarkostnaður fyrir árið 2011 hafi numið 2.314 milljónum króna, árið 2010 hafi kostnaðurinn verið 1,9 milljarðar og árið 2009 hafi kostnaðurinn verið 2.433,7 milljónir króna.

Ef tekinn er út kostnaður við seðlaprentun og myntsláttu var rekstrarkostnaður á síðasta ári 2.095,7 milljónir króna, árið 2010 var hann 1.900,7 milljónir króna og árið 2009 nam rekstrarkostnaður 2.222,2 milljónum króna.

Í svarinu kemur einnig fram að meðallaun starfsfólks Seðlabankans námu 610.403 krónum á síðasta ári. Þau hækkuðu um 9,34% frá fyrra ári. Launin hækkuðu hins vegar innan við 1% á árinu 2010.

Starfsmenn Seðlabankans voru 137 um síðustu áramót og fjölgaði um þrjá á árinu.

Rekstrarkostnaður Seðlabanka Íslands.
Rekstrarkostnaður Seðlabanka Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert