Eldingin klauf staurinn

„Ég hef aldrei upplifað annað eins. Ég hélt að ég væri ekki á Íslandi,“ segir Sólveig Stolzenwald, íbúi á Hellu, en miklar þrumur og eldingar gengu yfir Suðurland í skúraveðri í gær. Eldingu laust m.a. niður í rafmagnsstaur og klauf hún staurinn.

Sólveig sagði að eldingarnar hefðu byrjað um kl. þrjú í gær og staðið til að verða sex. Lætin hefðu ekki farið framhjá íbúum á Hellu, en eldingarnar hefðu sést víðar, m.a. á Selfossi.

Eldingu laust niður í rafmagnsstaur við Brekknaholt, skammt frá Landvegamótum. Eldingin náði að kljúfa staurinn. Rafmagn fór af línunni og urðu bæir í Holtum rafmagnslausir um tíma.

Haraldur Eiríksson veðurfræðingur segir að svona miklar eldingar séu ekki algengar hér á landi. Það hafi gert mikið skúraveður á Suðurlandi í gær og því hafi fylgt miklar þrumur og eldingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert