Salan hjá Tomma aukist um 30-40% í Lundúnum

Tómas Tómasson, stofnandi Hamborgarabúllu Tómasar, en staður að fyrirmynd hennar …
Tómas Tómasson, stofnandi Hamborgarabúllu Tómasar, en staður að fyrirmynd hennar opnaði nýlega í Lundúnum og gengur vel. Heiðar Kristjánsson

„Það var mikið að gera hérna fyrir en nú er bara brjálað að gera,“ sagði Róbert Aron Magnússon rekstrarstjóri Tommi's burger joint í Lundúnum, en eins og mbl.is greindi frá fær staðurinn og hamborgararnir þar frábæra dóma hjá gagnrýnanda The London Evening Standard.

„Við getum örugglega talað um að það hafi aukist allavega um 30-40% ef ekki meira. Þetta er búið að vera ansi gott rennsli sem við vorum mjög ánægðir með, en það er eiginlega búið að tvöfaldast síðustu daga. Bæði út af þeirri umfjöllun og svo erum við búin að fá rosalega góða umfjöllun hjá helstu bloggurum og á Twitter. Það sem er skemmtilegt er að það eru margir sem koma tvisvar á dag, taka hádegið og á kvöldin. Sumir taka tvo í einu þannig að þetta er magnað. Það er gaman af þessu,“ sagði Róbert Aron.

„Komu okkur skemmtilega á óvart“

„Þeir komu okkur skemmtilega á óvart því við vissum ekki hvað þeir myndu segja en vorum mjög hamingjusamir þegar við sáum þessa fínu meðhöndlun,“ sagði Tómas Tómasson, einn af stofnendum Hamborgarabúllu Tómasar, en staðurinn í Lundúnum er að þeirri fyrirmynd og matseðilinn sá sami.

„Þetta kom í gær þannig að dagurinn í dag er búinn að vera mjög líflegur. Við vitum ekki meir en það kom verulega skemmtilega á óvart. En maður veit aldrei hvernig morgundagurinn verður, en það lítur ekki illa út,“ sagði Tómas.

Stefnt að nýjum stað í Kaupmannahöfn með vorinu

Spurður að því hvort til standi að opna víðar í heiminum sagði Tómas: „Við höfum tekið þá stefnu að reyna að ná tökum á þessum fyrsta stað. Láta hann festa rætur og sjá svo til hvað við getum í framtíðinni. Menn hafa sýnt þessu mikinn áhuga og haft samband og gaman að finna það að fólk hefur trú á „konseptinu.“ En að fara af stað of fljótt er stórhættulegt.“

Tómas upplýsti þó að nýr staður verði opnaður í Kaupmannahöfn með vorinu ef allt gangi upp. En það séu ekki sömu rekstaraðilar og í Lundúnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert