Framtíðin er einstaklingsmiðað nám

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við skoðuðum þetta eftir að samræmdu prófin voru afnumin 2008. Þá urðum við ekki vör við neina sveiflu í einkunnum og við munum halda áfram að fylgjast með því,“ segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um mögulega verðbólgu í einkunnum í grunnskólum. Skólastjórnendur í framhaldsskólum segja matið á frammistöðu nemenda ójafnt eftir grunnskólum og það bitni á nemendum sem fái villandi skilaboð um eigið ágæti.

„Við viljum einstaklingsmiða námið meira og skólinn komi meira til móts við þarfir hvers og eins og að skólarnir geti tekið fram fjölbreyttara námsframboð. Það er í takt við það sem er að gerast allstaðar í heiminum.“

Meira svigrúm við inntökur

Katrín segir að framhaldsskólarnir hafi nú meira svigrúm samkvæmt nýrri námskrá til þess að laga inntöku að breyttum tímum. Nú sækja 96-99% nemenda um framhaldsskóla og segir Katrín það mikla breytingu í samfélaginu á stuttum tíma.

„Framhaldsskólar eru að vinna að því að bjóða upp á fjölbreyttara nám sem er meira við hæfi ólíkra hópa. Skólarnir þurfa ekki að miða bara við einkunnir við val á nemendum í framhaldsskóla. Þeir geta tekið mið af því hvort nemandi er í tónlistarnámi, íþróttum eða sterkur félagslega til dæmis. Þeir geta ákveðið hvort þeir vilji hafa jöfn kynjahlutföll og hvort þeir vilja veita fólki úr hverfinu forgang. Það er algjörlega val skólanna sjálfra. Þetta snýst um að það skiptir máli að námsmatið sé fjölbreytt og það endurspegli skólastarfið.“

Samræmd próf ekki lykillinn

Samræmdu prófin í lok 10.bekkjar voru afnumin 2008. Síðan þá hafa verið haldin samræmd könnunarpróf í upphafi 10. bekkjar sem Katrín telur nýtast þeim vel til að fylgjast með framvindu grunnskólanna.

„Framtíðarsýn okkar er að samræmdu könnunarprófin verði rafræn þannig að þau miðist við getu hvers og eins. En þetta eru bara könnunarpróf en ekki endanlegt námsmat, þetta getur þó verið góður kvarði á árangurinn heilt yfir.

Við leggjum áherslu á að það sé fagmennska bæði í grunnskólum og framhaldsskólum, þeir verða að geta treyst hvor öðrum. Samræmd próf eru ekki lykilinn, heldur snýst þetta um að við viljum auka fjölbreyttara námsmat og fagmennsku.“

Skóli án aðgreiningar

Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara, leggur áherslu á að inntökur í framhaldsskóla verði að vera í takt við grunnskólann. „Við erum með skóla sem eru skólar án aðgreiningar, þar er krafa um að við mætum nemendum á því stigi sem þeir eru.

Ef inntökur í framhaldsskóla eiga að vera í takt við það sem við erum að gera þurfa þær að vera einstaklingsmiðaðar.“

Með því að mæta nemendum á því stigi sem þeir eru á, á Guðbjörg við að námsefnið sé aðlagað að nemandanum sem tekur síðan próf úr því efni sem hann hefur fengið í hendurnar. Því fara ekki allir í jafn þung próf. Einnig eru ekki sömu bækur fyrir alla nemendur ásamt því að þeir fá misþung verkefni.

„Í samræmdu prófunum fara allir í sama prófið óháð hvar þeir standa og einstaklingsmiðun er því engin. Auðvitað er nú vandasamt fyrir framhaldsskóla að taka við nemendum þar sem þú veist ekki hvað stendur á bak við einkunnina. Það þarf að finna einhvern flöt á þessu, hvernig við getum gert þetta vel.

Þetta mótast allt af lögum og reglum. Mér finnst þó mun eðlilegra að við mætum nemendum þar sem þeir eru, þar sem við erum með og viljum vera með skóla fyrir alla.“

Einkunnir ekki sambærilegar

„Þegar einkunnir eru settar saman hlið við hlið með ólíkan bakgrunn, eru þær í raun ekki sambærilegar,“ segir Sigurgrímur Skúlason, sviðsstjóri prófdeilda hjá Námsmatsstofnun. Hann telur eðlilegt að þeir fáu framhaldsskólar sem nota aðeins einkunnir við inntökur nemenda séu með einhver próf þar á bak við sem eru sambærileg.

„Ég tel þó ekki að við þurfum próf af þeirri stærðargráðu sem samræmdu prófin voru orðin fyrir inntökuna,“ segir Sigurgrímur. Hann telur ekki æskilegt að fara í sama farveg og áður var með samræmdum prófum, en telur þó nauðsynlegt að koma á einhverju kerfi milli skólastiga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert