Konan enn ófundin - leit frestað

Björgunarsveitarfólk að störfum.
Björgunarsveitarfólk að störfum. mbl.is

Erlenda ferðakonan sem leitað hefur verið við Eldgjá í dag er enn ófundin. Lögreglan segir engar vísbendingar hafa borist um ferðir hennar eftir að hún yfirgaf rútu við Eldgjá í hádeginu. Leit hefur nú verið frestað. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Hvolsvelli er talið að konan hafi verið ein á ferðalagi.

Lögreglan á Hvolsvelli og björgunarsveitir á Suðurlandi hafa leitað konunnar í dag. Konan er ferðamaður af asískum uppruna og fór í rútu að Eldgjá í Skaftártunguafrétti um hádegisbil í dag. 

Stoppað var við Eldgjá í klukkustund en þegar halda átti til baka skilaði konan sér ekki og hefur ekkert til hennar spurst síðan. Bílstjóri rútunnar beið hennar í um klukkustund áður en ferðinni var haldið áfram. Lét hann lögreglu vita og var hafin eftirgrennslan skömmu síðar.

 Konan er af asískum uppruna, um 160 cm á hæð, dökkklædd og talar góða ensku, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar. Hún er á aldrinum 20-30 ára og með litla, ljósa hliðartösku.

Í dag hefur Björgunarsveitin Stjarnan úr Skaftártungu farið um svæðið á bílum og fjórhjólum og kannað alla slóða í kring og upp með ánni. Síðar voru allar sveitir í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu kallaðar til leitar.

 Ekki er talið loku fyrir það skotið að konan hafi fengið far með öðrum af svæðinu.

Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um ferðir konunnar eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögregluna á Hvolsvelli í síma 488 4110.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert