Mikill og ótvíræður árangur

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Hólum í Hjaltadal er lokið. Á fundinum var m.a. samþykkt ályktun um að ríkisstjórnarsamstarf VG og Samfylkingar hefði skilað miklum og ótvíræðum árangri. „Betur má ef duga skal og þessum árangri þarf að fylgja eftir með áframhaldandi samstarfi vinstrimanna í íslenskum stjórnmálum á næsta kjörtímabili,“ segir í ályktuninni. „Flokksráðið hvetur flokksmenn til að stilla saman strengi á þeim afdrifaríku mánuðum sem fara í hönd og til þróttmikillar og málefnalegrar kosningabaráttu.“

Á fundinum var einnig samþykkt ályktun til stuðnings Pussy Riot þar sem framganga  rússneskra stjórnvalda gagnvart aðgerðasinnunum Pussy Riot er fordæmd. Þrjár konur úr hljómsveitinni hafa fengið tveggja ára fangelsisdóm fyrir mótmæli. „Þessi valdbeiting er aðför að tjáningarfrelsi og brýtur í bága við þau grundvallar mannréttindi sem eiga að einkenna nútíma samfélög,“ segir í ályktun VG.

Þá var á fundinum samþykkt ályktun um samskipti Íslands við aðrar þjóðir eða þjóðabandalög og í henni leggur VG áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu.

„Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur að grundvöllur alþjóðlegs samstarfs eigi að vera lýðræðisleg vinnubrögð og barátta fyrir friði og öryggi í heiminum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á að efla samstarf Íslands við aðrar þjóðir á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmar virðingar. Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á sjálfsákvörðunarrétt þjóða og félagslega hnattvæðingu sem horfir fyrst og fremst til félagslegra tengsla þegar ákvarðanir í alþjóðasamskiptum eru teknar,“ segir í ályktuninni.

Fagna umræðu um samskipti ESB og Íslands

 „Til þess að Ísland geti tekið fullan þátt í alþjóðasamstarfi á næstu árum þarf að fara fram umræða í samfélaginu um hvernig slíku samstarfi á að vera háttað, hvaða hagsmuni ber að verja og hvaða hagsmunir eru til þess fallnir að styrkja tengsl Íslands við alþjóðasamfélagið. Flokksráð VG fagnar þeirri umræðu sem nú fer fram um samskipti Íslands og ESB og hvetur til að henni verði haldið áfram,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Forneskjuleg lög

 Á flokksráðsfundinum var einnig samþykkt ályktun gegn takmörkun tjáningarfrelsis. Í henni er lagt til að hafin verði vinna við endurskoðun á þeim ákvæðum íslenskra laga sem varða þau „sjálfsögðu mannréttindi að mótmæla“ líkt og segir í ályktuninni.

„Dæmi um forneskjuleg lög sem enn eru í gildi er 95. grein almennra hegningarlaga sem bannar svokallaða smánun á erlendu ríki sem og 125. grein almennra hegningarlaga sem banna guðlast.

Það er grundvallaratriði að á Íslandi ríki tjáningarfrelsi og að ekki sé hægt að beita úreltum lögum fyrir sig í tilraun til þöggunar. Ísland vill verða brautryðjandi á sviði mannréttinda og endurskoðun laganna gæti verið lykilskref í þá átt.“

 Þá ályktar flokksráðsfundurinn um auglýsingar hjá hinu opinbera þar sem VG áréttar að „jafnan skuli auglýsa stöður hjá hinu opinbera, í samræmi við opna stjórnsýsluhætti og lög“.

Vara við hugmyndum um sæstreng milli Íslands og Skotlands

Fundurinn samþykkti einnig ályktun um rafmagnssæstreng þar sem varað er við framkomnum hugmyndum um lagningu rafmagnssæstrengs milli Íslands og Skotlands. „Jafnvel þó að slík sæstrengslögn væri tæknilega möguleg myndi fjárfesting af þeirri stærðargráðu kalla á stórfellda rányrkju á íslenskum orkuauðlindum og stórhækkun á raforkuverði innanlands,“ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert