Samstarf kallar á málamiðlanir

Árni Þór Sigurðsson og Steingrímur J. Sigfússon.
Árni Þór Sigurðsson og Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og formaður utanríkismálanefndar, segir flokksráðsfund VG um helgina hafa gengið vel. „Hvað varðar utanríkismálin þá fengu þau mjög fína umræðu í starfshópi, við fórum dálítið vítt yfir, fókusuðum sérstaklega á norðurslóðamál og á Evrópumálin. Þar voru allir sammála um það, meira og minna, að við þyrftum að láta eitthvað frá okkur fara en hins vegar vildu menn að það yrði á þessum nótum sem síðan varð ofan á, að flokksráðið tæki undir það að umræðum um stöðu ESB-aðildarinnar yrði fagnað og hvatt til þess að þeim yrði haldið áfram,“ segir Árni.

Eins og alkunna er þá eru stjórnarflokkarnir ekki á einu máli um aðildarumsóknina að ESB og VG klofinn að auki í afstöðu sinni gagnvart henni, þríklofinn að mati varaformanns flokksins, Katrínar Jakobsdóttur. Blaðamaður spurði Árna hvort hann héldi að mikill tími og orka myndi fara í það í vetur hjá þingmönnum VG að berjast gegn aðildarumsókninni á þingi.

„Það er ekki gott að meta það. Ég tel - eins og ég sagði við einhvern annan fjölmiðil - að mér fyndist eðlilegt að flokkarnir, ríkisstjórnarflokkarnir fyrst og fremst, setjist niður og ræði stöðuna sín í milli og þreifi á því hvort hægt sé að finna einhvern sameiginlegan flöt á því hvernig framgangur málsins verður. Í mínum huga er mjög mikilvægt að framgangur þessa máls ráðist af hagsmunum Íslands en ekki einstakra stjórnmálaflokka, alveg sama hvað þeir heita og hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það verður bara að fara vel yfir það, hverjir eru hagsmunir Íslands um þessar mundir og meta stöðuna, bæði í Evrópu og hér heima.“

-Nú segir varaformaðurinn að samstaðan og samheldnin sem einkenndi flokkinn sé horfin...

„Það er auðvitað alveg ljóst, það sjá það allir sem eru með opin augun, að þessi tími núna, þetta kjörtímabil, hefur verið erfitt fyrir VG innanflokks. Það hafa verið hremmingar og átök og mannfórnir, ef svo má segja. En það er bara þannig að við höfum auðvitað verið í mjög erfiðum verkefnum, að koma Íslandi á lappirnar aftur og það var í sjálfu sér vitað mál að það myndi taka á og þetta er náttúrlega líka spurning um hvað menn eru reiðbúnir til að gera í stjórnmálum til að koma sínum málum á framfæri og ná þeim fram.

Ef þeir eru í samstarfi við aðra þá kallar það á málamiðlanir og að menn virði lýðræðislega afgreiðslu, líka innan sinna eigin flokka því að þau mál sem við höfum verið að glíma við, t.d. stjórnarsáttmálinn við Samfylkinguna þegar hann er afgreiddur, þá er hann samþykktur nánast samhljóða innan Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Stefnumótunin um það að þjóðin skuli ráða þessu ESB-máli til lykta er afgreidd á landsfundi flokksins 2009, vorið fyrir kosningar. Þannig að öll skref sem hafa verið tekin í þessu máli hafa verið tekin í back-up frá stofnunum flokksins.

En ef menn eru í félagsstarfi verða þeir líka að una því að félagsskapurinn taki á einhverjum tímapunkti ákvarðanir sem menn vinna síðan eftir,“ segir Árni Þór. Allir sem séu í stjórnmálum upplifi það einhvern tíma að verða undir með sínar skoðanir í sínum flokki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert