„Sérstakt, engu líkt“

„Þetta var sérstakt, engu líkt, alveg einstök upplifun,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls sem var viðstödd flugeldasýninguna við Jökulsárlón í kvöld. Sýningin stóð í yfir 40 mínútur og um 1.500 manns voru á staðnum. Enn fleiri fylgust með í beinni útsendingu á vefmyndavél Mílu.

Jónas Friðriksson, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, sem stóð að sýningunni, segir hana hafa heppnast ótrúlega vel og er þakklátur öllum þeim sem mættu. Veðrið hafi verið frábært, blankalogn og heiðskírt. Sýningin var nú haldin í 11. sinn og er hún til styrktar Björgunarfélaginu.

Sigríður Dögg segir að fólk á öllum aldri hafi fylgst með sýningunni. Starfsmenn Jökulsárlóns ehf. hafi farið um lónið á bátum og skotið upp af ísjökunum. „Það var klappað og hrópað og kallað við hvert skot,“ segir Sigríður Dögg en útlendingar jafnt sem Íslendingar fylgdust með sjónarspilinu. Fólk sat í brekku við lónið, líkt og í stúku og stemningin mögnuð. Engin ljósmengun er á svæðinu sem jók enn frekar á upplifunina af marglitum ljósum flugeldanna.

Auður Freyja Árnadóttir, dóttir Sigríðar og Árna Helgasonar, var með foreldrunum í för og titraði af spenningi áður en flugeldunum var skotið upp. „Hún æpti og skríkti á meðan sýningunni stóð,“ segir Sigríður en mörg börn fengu að vaka lengur í kvöld og fylgjast með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert