Von á miklum norðurljósadansi

Árið 2013 mun svokölluð sólblettasveifla ná hámarki og er þess að vænta að samfara aukinni sólvirkni næsta vetur eða tvo verði litrík og mikil norðurljós tíðari. Nokkuð hefur verið fjallað um málið í erlendum fjölmiðlum og Ísland gjarnan nefnt í því samhengi en ljóst er að mikilfenglegur norðurljósadans er lóð á vogarskálar ferðaþjónustuaðila sem sérhæfa sig í norðurljósaferðamennsku.

„Í kringum hámarkið á sólblettasveiflunni þá er sólvirkni að jafnaði mest og þar af leiðandi líklegast að sjá tilkomumikil norðurljós á þeim tíma,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur en hann hélt erindi um áhrif norðurljósanna á ferðaþjónustuna á fræðslufundi sem Íslandsstofa hélt í desember síðastliðnum.

„Sýnd veiði en ekki gefin“

Sólblettahringrásin er ellefu ár og var síðasta hámarki náð árið 2002. „Fleiri sólblettir valda aukinni virkni sólarinnar og þar af leiðandi verður flæði rafhlaðinna agna frá sólinni meira en ella,“ útskýrir Einar. „Það eru þessar agnir, þegar þær skella á jörðinni, sem valda norðurljósunum í kransumhverfi segulpólanna, bæði á norðurhveli og suðurhveli jarðar,“ segir hann en agnirnar örvi efni í lofthjúpnum og valdi þannig ljósaganginum.

Einar segir spár sólarfræðinga benda til þess að sólblettir verði færri nú en þegar hámarkinu var náð í síðasta hring, þ.e. 2002, og þá sé mikilvægt að hafa í huga að virknin sé þrátt fyrir allt mismikil frá degi til dags. Sólaratburði sem valda norðurljósunum, á borð við sólgos og sólvind, sé ekki hægt að segja fyrir um og því megi segja að ljósin séu sýnd veiði en ekki gefin.

„Síðan er annað í þessu og það er að til þess að sjá norðurljósin verður að vera sæmilega bjart, þ.e. stjörnubjart. Það er einn áhættuþátturinn í þessu líka,“ segir Einar. Ferðaþjónustuaðilar geti fylgst með skýjafari, farið með fólk þangað sem ljósmengun er sem minnst og kynnt sér sólvirknina eins og hún er hverju sinni og einhverjar klukkustundir fram í tímann en annað sé ekki á þeirra valdi.

Fær gleðisjokk

Ísland liggur á því belti umhverfis norðurpólinn þar sem líklegast er að menn fái litið norðurljós en Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Hótel Rangá, segir reynsluna sýna að um 80% gesta sem dvelja þrjár nætur eða lengur á hótelinu fái að upplifa norðurljósin dansa á himni. Hann segist þó hafa farið varlega í að markaðssetja út á væntanlega sólarsveiflu.

„Sannleikurinn er sá að norðurljósin eru mjög fín burtséð frá þessum toppum og umræðan um að þetta sé nánast síðasti séns til að sjá norðurljósin er okkur ekki mjög að skapi,“ segir Friðrik. Hann segir söluaðila erlendis hafa nokkrar áhyggjur af því hvað fjölmiðlar, t.d. í Bretlandi, séu uppteknir af umræddum toppi næstu vetur en umfjöllunin hafi verið á þann veg að halda mætti að slökkt verði á ljósunum að þeim liðnum. „Þannig að við að sjálfsögðu vitum af þessu og gerum út á það að norðurljósin verði góð þennan tíma en við látum líka virkilega vita af því að það er ekki eins og þau endi þarna, heldur kemur þetta í sveiflum og væntanlega verða árin 2015, 2016 og 2017 líka góð,“ segir hann.

Þrátt fyrir að Íslendingar séu ef til vill norðurljósunum vanir segir Friðrik þau hafa sterk áhrif á þá sem hafa ferðast um langan veg til að sjá þau. „Fólki finnst þau stórkostleg, og meira en það, því það eru ekki fáir sem hafa brostið í grát. Við höfum dæmi um að fólk sé að koma í sjöunda eða áttunda sinn að reyna að sjá norðurljósin, er kannski búið að koma áður til Íslands eða hefur farið til Finnlands, Lapplands, Kanada eða Alaska og þegar það loksins sér þau í allri sinni dýrð þá fær fólk pínulítið áfall, eða gleðisjokk,“ segir Friðrik.

Mikilvægt að sinna þessu vel

Friðrik leggur áherslu á mikilvægi þess að ferðaþjónustuaðilar sem gera út á norðurljósin sinni viðskiptavinum sínum vel; það dugi skammt að benda fólki á að vera vakandi fyrir ljósunum á ákveðnum tíma kvölds og láta þar við sitja.

„Við erum með næturvörð og hann hefur það verkefni alla nóttina, ef það er heiðskírt og sæmilegar líkur á ljósum, að líta út tíundu hverja mínútu eða þar um bil til að fylgjast með. Því oft koma þau mjög snöggt og fara mjög snöggt og reynsla okkar er sú að það er algjörlega ómögulegt að reiða sig á einhvern ákveðinn tíma nætur,“ segir hann. Þá sé jafnframt mikilvægt að bjóða norðurljósaáhugafólki upp á fjölbreytta afþreyingu þegar bjart er og hverfandi líkur á norðurljósasjónarspili.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert