Leggja fram tillögu um stjórnarskrá

Ágúst Þór Árnason
Ágúst Þór Árnason mbl.is

Ágúst Þór Árnason, deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri, og Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hafa sett fram heildartillögu að endurskoðaðri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem birt er á heimasíðunni www.stjornskipun.is.

Tillögunni er ætlað að vera framlag til þeirrar umræðu um stjórnarskrármál sem nú fer fram í tilefni af endurskoðun stjórnarskrárinnar og væntanlegri atkvæðagreiðslu um frumvarp stjórnlagaráðs 20. október næstkomandi.

„Með framlagningu tillögunnar er leitast við að sýna fram á, svart á hvítu, að endurskoðuð stjórnarskrá lýðveldisins geti grundvallast á atriðum sem um ríkir veruleg samstaða og hlotið hafa rækilega skoðun. Að baki tillögunni býr sú hugsun að nauðsynlegt sé að nálgast endurskoðun stjórnarskrárinnar með yfirvegun og stilla breytingum í hóf. Tillagan byggist að verulegu leyti á vinnu og hugmyndum stjórnlaganefndar sem starfaði samkvæmt lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing, en nefndinni var m.a. ætlað að leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings að breyttri stjórnarskrá þegar það kæmi saman,“ segir í fréttatilkynningu.

Ágúst Þór og Skúli sátu báðir í stjórnlaganefnd sem skilaði skýrslu sinni 24. febrúar 2011. Þeir hafa gefið út fjölda ritgerða um lögfræðileg og stjórnskipuleg efni auk smærri greina í dagblöð. Allar nánari upplýsingar um tillöguna og forsendur hennar er að finna á stjornskipun.is.

Skúli Magnússon.
Skúli Magnússon. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert