Vilja að hlé verði gert á ESB-viðræðunum

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og …
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, og Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hittast í Brussel í janúar síðastliðnum. mbl.is

Forsvarsmenn samtaka sjávarútvegsfyrirtækja í Evrópusambandinu og Noregi funduðu með Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, síðastliðinn mánudag þar sem þeir lögðu fram lista yfir þau grundvallaratriði sem þeir vilja að frekari viðræður um makríldeiluna taki mið af af hálfu Norðmanna og sambandsins. Fjallað er um málið á heimasíðu samtaka norskra útvegsmanna Fiskebat.no.

Forsvarsmennirnir óskuðu eftir fundinum með Damanaki vegna viðræðufundar sem fyrirhugaður er næstkomandi mánudag 3. september í London þar sem freista á þess að semja um makrílveiðarnar. Umræddur listi telur 11 atriði sem samningsafstaða Evrópusambandsins og Noregs yrði að byggjast á að mati forsvarsmanna samtakanna.

Grænland verði ekki viðurkennt sem strandríki

Gerð er krafa um það í fyrsta lagi að viðræðurnar við Íslendinga og Færeyinga verði hafnar á byrjunarreit og öll fyrri tilboð Evrópusambandsins og Norðmanna verði tekin út af borðinu. Í annan stað verði ekki um að ræða neina „umbun fyrir slæma hegðun.“ Þá verði lögð áhersla á að kröfur Íslands og Færeyja séu óréttlætanlegar.

Ennfremur fái Íslendingar og Færeyingar engan aðgang að fiskveiðilögsögum Evrópusambandsins og Noregs og að um samning til skamms tíma verði að ræða. Þá er einnig meðal annars lögð áhersla á að hægt verði að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum með beinum hætti náist ekki samningar.

Forsvarsmennirnir vilja aukinheldur að gert verði hlé á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið ef ekki semjist og að samningar um kolmunna verði endurskoðaðir. Að endingu vilja þeir að staða Grænlands sem strandríkis verði ekki viðurkennd og að þeir fái ekki aðild að samningum um skiptingu makríls í framtíðinni en hann er nú farinn að veiðast í grænlensku lögsögunni.

Enginn samningur betri en slæmur samningur

Fram kemur ennfremur í fréttatilkynningu samtaka sjávarútvegsfyrirtækja í Noregi og Evrópusambandinu að tíminn vinni ekki með Íslendingum og fullyrt að makríl sé í minna mæli nú en áður í íslensku efnahagslögsögunni. Rannsóknir í sumar benda hins vegar til þess að hann hafi aldrei verið meiri eins og nýverið var fjallað um á mbl.is.

Þá segir í tilkynningunni að samtökin telji að fundurinn með Damanaki hafi verið jákvæður og uppbyggilegur. Lögð hafi verið áhersla á það við sjávarútvegsstjórann að beita öllum tiltækum ráðum til þess að tryggja sanngjarnan samning fyrir alla aðila deilunnar. Ef slíkur samningur reynist hins vegar ekki í boði séu samtökin einhuga um að enginn samningur sé betri en slæmur samningur.

Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku stranda þrír kaflar viðræðnanna um inngöngu Íslands í Evrópusambandið á makríldeilunni. Fyrir utan kafla 13 um sjávarútvegsmál er um að ræða tvo kafla sem tengjast möguleikum erlendra aðila til þess að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi og stofna hér fyrirtæki í atvinnugreininni.

Umfjöllun á Fiskebat.no

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert