Makrílstofninn hugsanlega vanmetinn

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Hugsanlegt er að gögn um makrílstofninn í norðaustanverðu Atlantshafi hafi vanmetið stærð hans vegna ofveiði útgerða, til að mynda í Skotlandi. Stofninn sé þar af leiðandi líklega mun stærri og þoli fyrir vikið þá miklu veiði sem stunduð hafi verið undanfarin ár. Ennfremur er það niðurstaða rannsókna hafrannsóknastofnana Íslands, Noregs og Færeyinga að makríll hafi ekki verið í meira mæli í íslensku efnahagslögsögunni en í ár eins og fjallað hefur verið um á mbl.is.

„Þetta eru sterk rök fyrir því að semja ekki til langs tíma vegna þess að það er svo mikil óvissa. Bæði vegna vísbendinga um að makrílstofninn sé mikið stærri og hins vegar að gengdin hingað kunni að verða mikið meiri og þar með áhrifin á lífríkið hér við land og aðra stofna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, en hann sat fund utanríkismálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um stöðuna í makríldeilunni.

Sigurður segist telja rétt í stöðunni að leggja áherslu á öflun frekari upplýsinga og gagna og semja um skiptingu makrílkvótans til skemmri tíma frekar en lengri. Hann bendir á að það væri mjög bagalegt að semja um makrílveiðarnar miðað við núverandi aðstæður til langs tíma ef makrílgengd inn í íslensku lögsöguna á eftir að halda áfram að aukast á næstu árum.

„Svo er hitt að við höfum ekki staðið okkur nægjanlega vel í áróðursstríðinu út á við og við framsóknarmenn hvetjum til þess að tekið verði verulega á í þeim efnum. Þetta er auðvitað mjög ámælisvert,“ segir Sigurður og bendir á að á sama tíma og Íslendingar séu sakaðir af Evrópusambandinu og Norðmönnum um að huga ekki að sjálfbærni sé íslenska fiskveiðistjórnarkerfið lofað erlendis fyrir sjálfbærni.

Fundað verður í London næstkomandi mánudag 3. september þar sem reynt verður að finna lausn á makríldeilunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert