Ólíðandi að ráðherrar brjóti ítrekað jafnréttislög

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fram kemur í ályktun frá jafnréttisnefnd Framsóknarflokksins að nefndin harmi það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar brjóti ítrekað gegn jafnréttislögum og leggur áherslu á að lögin séu ein grunnstoð jafnréttis kynjanna og að eftir þeim verði allir að fara.

Tilefni ályktunarinnar er úrskurður Kærunefndar jafnréttismála þess efnis að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi gerst brotlegur við jafnréttislög við skipan í embætti sýslumanns á Húsavík en einnig er rifjað upp að í sumar hafi einnig verið úrskurðað að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafi brotið jafnréttislög.

Ályktunin í heild:

„Jafnréttisnefnd Framsóknarflokksins harmar að ráðherrar ríkisstjórnarinnar brjóti ítrekað jafnréttislög og áréttar að jafnréttislögin séu ein grundvallarstoð jafnréttis kynjanna og eftir því beri öllum að fara, líka ráðherrar landsins.

Til upprifjunar má benda á að forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir varð aðeins fyrir nokkrum misserum einnig uppvís að því að brjóta jafnréttislögin.

Þetta er með öllu ólíðandi og í því samhengi má benda á að báðir ráðherrar sitja í nefnd sem skipuð var árið 2009 um jafnrétti kynja. Nefndinni er meðal annars ætlað að veita málaflokki jafnréttis aukið vægi innan stjórnkerfisins.

Nú er það innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson sem á í hlut og virðist telja sig upp yfir lögin hafinn. Hann ætti að skammast sín.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert