969 fóstureyðingar árið 2011

mbl.is/ÞÖK

Árið 2011 voru framkvæmdar 969 fóstureyðingar á Íslandi, sem er svipaður fjöldi og undangengin ár. Þetta kemur fram í Talnabrunni landlæknisembættisins. Fram kemur að ef sömu tölur séu skoðaðar miðað við hverja 1.000 lifandi fædda megi hins vegar merkja nokkra aukningu.

Þannig hafi verið framkvæmdar tæplega 216 fóstureyðingar á hverja 1.000 lifandi fædda einstaklinga árið 2011, en nokkur ár á undan hafi verið framkvæmdar um 200 fóstureyðingar á hverja 1.000 lifandi fædda.

Segir að þessi aukning helgist m.a. af því að árið 2011 hafi fæðingum fækkað nokkuð miðað við árin á undan, en þrír af fimm fjölmennustu árgöngum Íslandssögunnar fæddust á árunum 2008, 2009 og 2010.

Að jafnaði eru gerðar flestar fóstureyðingar á konum í aldurshópnum 20–24 ára. Fram kemur að árið 2011 hafi engin breyting orðið á því, en tæplega 30% allra fóstureyðinga það ár voru framkvæmd á konum í þeim aldurshópi. Sé litið til fjölda fóstureyðinga á hverjar 1.000 konur á aldrinum 20–24 voru þær tæplega 25 árið 2011 eða lítið eitt fleiri en undanfarinn áratug.

Næstflestar fóstureyðingar voru hjá konum í aldurshópnum 25–29 ára, eða ríflega 19% allra fóstureyðinga, en strax á hæla þeirra koma stúlkur 19 ára og yngri með 18,2% framkvæmdra fóstureyðinga.

Fjöldi fóstureyðinga á hverjar 1.000 stúlkur á aldrinum 15–19 ára hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin fimm ár (15,6 árið 2011), en fóstureyðingar í þessum yngsta aldurshópi voru heldur fleiri fyrir áratug. Hlutfallslega fæstar fóstureyðingar voru meðal kvenna yfir fertugu, 4% af heildarfjöldanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert