Borgin fékk góð tilboð í rafbíla

Útboð Reykjavíkurborg á rafbílum gekk vel.
Útboð Reykjavíkurborg á rafbílum gekk vel. mbl.si/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg áformar að kaupa fjóra rafbíla og fjölga enn frekar metanbílum. Ólafur I. Halldórsson, verkefnastjóri útboða og verðkannana hjá borginni, er mjög ánægður með þau tilboð sem bárust, en þau voru undir kostnaðaráætlun.

Brimborg átti lægsta tilboð í rafbílana, en fyrirtækið bauðst til að útvega fjóra rafbíla á 13.376.000 krónur. Þetta er um 84% af kostnaðaráætlun. Ólafur segir að þetta þýði að rafbílarnir séu ekki nema um einni milljón dýrari en minnsta gerð af metabíl. Sex tilboð bárust.

Borgin á eftir að yfirfara tilboðin og taka endanlega ákvörðun um kaupin, en Ólafur segir þetta mjög spennandi verkefni. „Þetta er tilraunaverkefni og við förum rólega af stað. Ég sé fyrir mér að bílarnir verði notaðir af fleiri en einum starfsmanni og þeir verði í bílageymsluhúsum í Borgartúni og Ráðhúsinu og það verði komið upp hleðslustöðvum fyrir þá þar. “

Reykjavíkurborg á 49 Hyundai-metanbíla sem starfsmenn í heimahjúkrun og starfsmenn á framkvæmda- og umhverfissviði hafa notað. Borgin opnaði nýverið tilboð í 21 metanbíl til viðbótar. Ólafur segir að þau tilboð hafi einnig verið góð, en þar voru færri bjóðendur.

Áhugi á metanbílum er sífellt að aukast.
Áhugi á metanbílum er sífellt að aukast. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert