Hvarf en dó ekki

Ragna Esther Sigurðardóttir
Ragna Esther Sigurðardóttir

Talið er líklegt að Ragna Esther Gavin, sem hvarf fyrir um 50 árum, sé fundin. Ættingjar hennar höfðu óttast að hún hefði verið myrt, en nú bendir flest til að hún hafi flúið úr ofbeldishjónabandi, skipt um nafn og látist úr krabbameini í Bandaríkjunum árið 2002, 75 ára gömul.

Ragna Esther giftist bandarískum hermanni stríðsárunum og flutti til Bandaríkjanna. Tengsl við ættingja á Íslandi rofnuðu fljótlega eftir að hún flutti út. Löngu seinna komust ættingjar hennar að því að eiginmaður hennar hefði beitt hana miklu ofbeldi og hótað henni lífláti. Þau áttu tvö börn, en þau voru ættleidd.

Í frétt RÚV um þetta mál í dag segir að Lillý Valgerður Oddsdóttir hafi leitað að Esther og börnum hennar. Hún hafi fundið son hennar sem var ættleiddur og er enn á lífi.

Valgerður fann fyrir nokkrum dögum konu sem hún er sannfærð um að sé Esther. Sú kona lést árið 2002 úr lungnakrabba en hafði breytt nafninu sínu úr Ragna Esther Gavin í Radna E. Íshólm. Íshólmsnafnið er nafn fjölskyldunnar hér á Íslandi. Lillý komst að því að sú kona hafði búið í Alabama og gifst aftur og tókst að hafa uppi á dóttur hennar af því hjónabandi, Lou Ann Lemaster. Hún er búsett í Alabama og segir í samtali við fréttastofuna að hún sé sannfærð um að Esther og Radna séu ein og sama konan.

Lou Ann segist hafa orðið himinlifandi þegar hún fékk fréttirnar og kemst við þegar hún segir frá því. Hún hafi talið að allir í fjölskyldu móður sinnar hafi verið látnir. Lou Ann segist ekki hafa haft hugmynd um hversu erfitt líf móðir hennar hefði verið. Hún hafi lítið talað um líf sitt og hún hafi fyrst komist að því að móðir sín hefði verið íslensk þegar hún hafi verið að taka til í íbúð hennar eftir að hún dó. Lou Ann segist hafa komist að því þegar hún sjálf hafi fengið fæðingarvottorð sitt þegar hún var á fertugsaldri að hún ætti tvö hálfsystkin. Þá hafi hún rætt við móður sína. Hún hafi sagst hafa reynt að hafa uppi á börnunum tveimur en ekki haft erindi sem erfiði.

Mbl.is fjallaði líka um þetta mál í upphafi þessa árs.

Vefmiðillinn oregonlive.com fjallaði á sínum tíma um þetta mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert