Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi hefst í dag

Helmingur flóttafólksins frá Sýrlandi eru börn.
Helmingur flóttafólksins frá Sýrlandi eru börn. mbl.is

Mikill straumur flóttafólks liggur nú frá Sýrlandi og á hverjum degi leita þúsundir barna og fjölskyldur þeirra skjóls í nágrannaríkjunum. Helmingur flóttafólksins er börn. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er með mikinn viðbúnað á svæðinu enda verður ástandið alvarlegra með degi hverjum. UNICEF á Íslandi blæs í dag til neyðarsöfnunar fyrir stríðshrjáð börn frá Sýrlandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Almenningur á Íslandi er hvattur til að senda sms með skilaboðunum „unicef“ í söfnunarsímanúmerið 1900 og styrkja þannig hjálparstarfið um 1500 krónur. Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið á heimasíðunni www.unicef.is.

UNICEF leggur áherslu á heildrænar og samhæfðar aðgerðir og starfar bæði í Sýrlandi og í nágrannaríkjunum – Tyrklandi, Írak, Líbanon og Jórdaníu – en þangað hefur straumur flóttafólksins verið mestur.

Aðgerðir sem settar hafa verið í forgang eru meðal annars að koma hreinu vatni og hreinlætispökkum til fjölskyldna, bólusetja börn, tryggja börnum heilsugæslu, koma upp barnvænum svæðum í flóttamannabúðum og veita börnum sálrænan stuðning.

Áhersla er lögð á að ná bæði til barna í Sýrlandi og þeirra sem flúið hafa landið. Þörfin er gríðarleg og búist við því að hún eigi enn eftir að aukast.

Aðgerðir UNICEF á svæðinu

Í seinustu viku var hreinlætispökkum dreift í Damaskus í Sýrlandi en þeir nýtast yfir 100.000 manns. Þar hafa sjúkdómar tengdir óhreinu vatni og bágborinni hreinlætisaðstöðu meðal annars komið upp. Slíkar aðstæður koma alltaf sérstaklega illa niður á börnum.

UNICEF styður auk þess barnvæn svæði í Damaskus, Aleppo og Homs sem þjóna nærri 30.000 börnum. Framundan er að koma upp læknateymum sem þjónusta munu hátt í 200.000 börn og mæður þeirra sem leitað hafa skjóls í skólum og annars staðar.

Utan Sýrlands er mikið starf unnið með flóttafólki en daglega sér UNICEF meðal annars Za'atari-flóttamannabúðunum í Jórdaníu fyrir allt að 600.000 lítrum af hreinu vatni. Mikill straumur flóttabarna hefur legið í búðirnar upp á síðkastið og allt upp í 3.000 nýir íbúar bæst við á hverjum degi.

Í kortunum er meðal annars að bólusetja börn í búðunum til að reyna að sporna gegn því að sjúkdómar brjótist út og ástandið verði enn alvarlegra. Fíngert eyðimerkurryk smýgur alls staðar og sandstormar eru algengir.

Hjálparstarfið er umfangsmikið og þörfin á einungis eftir að aukast. Þar sem UNICEF rekur allt sitt starf með frjálsum framlögum er það von UNICEF á Íslandi að Íslendingar taki vel í neyðarsöfnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert