Brynjar Mettinisson látinn laus á næstunni

Brynjar Mettinisson.
Brynjar Mettinisson.

Brynjar Mettinisson, sem verið hefur í fangelsi í Tælandi í rúmt ár vegna gruns um aðild að fíkniefnammisferli, verður látinn laus á næstu dögum. Brynjar var sýknaður af öllum ákærum í lok júlí, en ákæruvaldið hafði mánaðar frest til að ákveða hvort málinu yrði áfrýjað. Nú liggur fyrir að svo verður ekki.

„Ég var að frétta af þessu. Hann kemur til okkar í Svíþjóðar í næstu viku til að jafna sig,“ segir Eva Davíðsdóttir, systir Brynjars. „Síðan mun hann væntanlega fara til Íslands, þar vill hann vera.“

„Mamma hringdi í mig í dag og sagði mér að málinu yrði ekki áfrýjað. Ég fékk gæsahúð, vissi ekki hvernig ég ætti að vera en fór síðan að hágráta. Líðanin er ólýsanleg þegar maður fær svona fréttir. Þetta er einn besti dagur lífs míns,“ segir Eva.

Niðurstaðan kom ekki á óvart

Eva og móðir hennar, Borghildur Antonsdóttir eru báðar búsettar í Svíþjóð, en Borghildur er nú stödd í Taílandi. Að sögn Evu veit Brynjar ekki af hann verður látinn laus á næstunni, hann hefur ekki aðgang að netinu og heimsóknir eru ekki leyfðar um helgar. „Þannig að mamma færir honum fréttirnar á mánudaginn. Ég er svo glöð að hann fær þessar fréttir hjá mömmu.“

Hún segir niðurstöðuna ekki hafa komið sér á óvart. „Ég vissi að hann yrði fljótlega látinn laus. Hann er saklaus og ég vissi að ekkert slæmt gæti hent hann.“

Hefur sætt sig við orðinn hlut

Eva segir að móðir þeirra Brynjars hafi nú verið í Taílandi í tæpar þrjár vikur og heimsótt Brynjar eins og og hún hafi mátt á þeim tíma.  „Mamma segir að hann kvarti aldrei. Hann vill ekki valda okkur áhyggjum og segir aldrei neitt slæmt. Hann segist vera búinn að sætta sig við það sem hefur gerst, en honum þykir verst að við höfum haft áhyggjur af honum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert