Geta ekkert smalað í dag

Ekkert er smalað í dag á Suðurlandi.
Ekkert er smalað í dag á Suðurlandi. mbl.is/Golli

Ekkert er smalað á Suðurlandi í dag vegna veðurs. Leitarmenn á afrétt Gnúpverja, Flóa- og Skeiðamanna bíða í leitarmannakofa í Bjarnarlækjarbotnum og munu ekki hreyfa sig neitt í dag. Ari Björn Thorarensen, sem tekur þátt í leitinni, segir hugsanlegt að það þurfi að fresta réttum á Suðurlandi.

„Hér er spænurok og við bíðum bara af okkur veðrið,“ sagði Ari í samtali við mbl.is í morgun. Hann segir að sama staða sé hjá fjallmönnum úr Hrunamannahreppi og úr Biskupstungnahreppi.

Ari sagði að það hefði snjóað í nótt en það ekki verið mikil úrkoma í morgun. Rokið væri hins vegar svo mikið að það væri engin leið að standa í smölun við þessar aðstæður.

Hann sagðist ekki telja að sauðfé væri nein hætta búin í þessu veðri. Snjókoman væri ekki það mikil.

Réttað er í mörgum af stærstu réttum á landinu um næstu helgi. Ari segir ekki ólíklegt að fresta þurfi réttum á Suðurlandi vegna veðursins. Það hafi þó ekki verið tekin nein ákvörðun um það, en það ráðist af því hvernig gangi að smala næstu daga. Hann reiknar með að leitarmenn fari af stað snemma í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert