Ísing veldur rafmagnsleysi

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. mbl.is/Rax

„Við erum að kalla út meiri mannskap til að reyna að lágmarka tjónið,“ segir Pétur Vopni Sigurðsson hjá RARIK á Akureyri en rafmagnsstaurar hafa brotnað í Mývatnssveit vegna mikillar ísingar. Rafmagnslaust er í N-Þingeyjarsýslu, Mývatnssveit og Bárðardal.

RARIK er með varaaflsvélar á Norðausturlandi, en þær framleiða ekki nægilegt rafmagn til að hægt sé að halda uppi rafmagni á öllu svæðinu. Pétur biður fólk á Norðausturlandi að spara rafmagn. Hann segir að skammta þurfi rafmagnið og búast megi við truflunum fram eftir degi því um víðtæka bilun sé að ræða.

„Það er ísingarveður og nokkrir staurar hafa brotnað í Mývatnssveit,“ segir Pétur en hann sagði í morgun að ísing væri enn að hlaðast á rafmagnslínurnar.

Ekki bætti ástandið að Laxárlína sem liggur frá Laxárvirkjun að Kópaskeri bilaði í nótt, en línan er í eigu Landsnets. Ekki er búið að finna bilunina, en talið er líklegt að línan hafi bilað vegna ísingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert