Malbikið flettist af og rúður sprungu

Malbik flettist af veginum við Skaftárbrú.
Malbik flettist af veginum við Skaftárbrú. mbl.is/Stefan Johannes

Malbikið flettist af veginum við brúna yfir Skaftafellsá í hvassviðrinu í dag. Rúður sprungu í bílum leiðsögumanna Íslenskra fjallaleiðsögumanna en þeir voru á leið með ferðamenn ofan af Svínafellsjökli og inn í Skaftafell.

Stefan Johannes, leiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, segir mjög hvasst hafa verið á svæðinu í dag. Á leiðinni að jöklinum var í lagi með malbikið á veginum við Skaftafellsá en á leiðinni til baka sáu leiðsögumennirnir að það hafði flest af á stórum hluta öðrum megin brúarinnar.

„Það var ekkert að um klukkan tíu í morgun en þegar við ókum til baka þá var vegurinn orðinn svona,“ segir Stefan. Hann segir að mjög erfitt hafi verið að aka um veginn í sterkustu hviðunum. „Það sprakk rúða í bílnum hjá okkur og líka í nokkrum öðrum bílum,“ segir Stefan. Rúðurnar hafi mölbrotnað.  Engir ferðamenn voru í bílnum er þetta átti sér stað.

Stefan hefur í fjögur ár farið með ferðamenn um svæðið og segist aldrei hafa lent í öðru eins á þessum árstíma. Ferðamennirnir hafi hins vegar verið hæstánægðir með veðrið. „Þeim fannst þetta nú flestum bara spennandi,“ segir Stefan. Hann segir að veðrið hafi verið skaplegt uppi á Svínafellsjökli en á láglendinu hafi verið mun hvassara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert