Níu ára fékk 99.000 króna reikning

Frá tannlæknastofu.
Frá tannlæknastofu. Þorkell Þorkelsson

Faðir níu ára gamallar stúlku segir það koma sér á óvart hversu mikill munur sé á gjaldskrá tannlækna og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands. Draga þurfti tönn úr dóttur hans vegna fæðingargalla og fyrir aðgerðina og smávægileg önnur tannlæknaverk greiddi hann samtals 99.306 krónur. 

Ef gjaldskrá viðkomandi tannlæknis væri í samræmi við þá gjaldskrá tannlækna sem birt er á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands, þá hefði reikningurinn verið um 30.000 krónum lægri. Til dæmis kostar úrdráttur tannar hjá barni sem er yngra en 18 ára 6.660 krónur samkvæmt gjaldskrá SÍ, en foreldrarnir greiddu 17.070 fyrir það.

Þá kostar gúmmídúkur, sem notaður var við aðgerðina 930 krónur samkvæmt gjaldskrá SÍ, en foreldrarnir greiddu rúmar 2000 krónur fyrir hann, en við aðgerðina voru notaðir þrír slíkir dúkar sem kostuðu samtals 6.210. Þrjár tennur voru skorufylltar hjá barninu, fyrir það greiddu foreldrarnir samtals 20.400, en væri gjaldskrá SÍ í gildi hefðu þau greitt talsvert minna, eða 10.485 krónur.

Nauðsynleg aðgerð

Faðirinn segist ekki hafa haft neitt val um hvort dóttir hans færi í þessa aðgerð eða ekki, endajaxl hennar hefði verið ónýtur vegna fæðingargalla og því hefði þurft að draga hann úr. „Við vissum fyrirfram hvað aðgerðin átti að kosta, en það virðist ekki vera á hreinu hversu mikið Tryggingastofnun endurgreiðir,“ segir hann. „Ég hringdi þangað í gær og fékk þau svör að hámarksendurgreiðsla væri um 20.000 krónur.“

Auk þess að greiða fyrir tannlæknaverkin, greiddu foreldrarnir fyrir aðstöðugjald á handlæknastöð, þar sem aðgerðin var framkvæmd, efnisgjöld, svæfingu og einn liðurinn kallast „Tækjaflutningur á aðgerðarstað“ og nemur rúmum 12.000 krónum. Alls eru þessi gjöld rúmar 44.000 krónur. Faðirinn segist litlar skýringar hafa fengið á síðastnefnda gjaldaliðnum.

Endurgreiðsla hækkuð fram að áramótum

Engir samningar eru í gildi á milli Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga Íslands og svo hefur verið um skeið. Endurgreiðsla vegna tannlækninga barna var hækkuð um 50% í sumar og gildir sú hækkun til áramóta. Ekki liggur fyrir hvað tekur þá við. 

„Endurgreiðslan hafði þá staðið í stað í átta ár. Við vitum ekkert hvað gerist um áramót, en vinnuhópur er að störfum sem fulltrúar tannlækna, SÍ og ráðuneytisins sitja í en það eru engar formlegar samningaviðræður,“ segir Sigurður Benediktsson, formaður Tannlæknafélags Íslands. 

Steinrunnin gjaldskrá

Hvaða tilgangi þjónar gjaldskrá SÍ, fyrst hún er ekki í neinu samræmi við verð á tannlæknaþjónustu? „Hún er steinrunnin og hefur ekki fylgt verðlagi. Það versta er, að þeir efnaminni geta ekki notað sér þennan litla rétt sem þeir hafa á endurgreiðslu þar sem þeir geta ekki klofið mismuninn,“ segir Sigurður.

Hann segir Tannlæknafélagið hafa komið upp með ýmsar hugmyndir í gegnum tíðina varðandi meiri endurgreiðslur á tannlæknaþjónustu, flestar hafi fallið í fremur grýttan jarðveg. „Við höfum verið með þá hugmynd að munnholið sé jafnrétthátt og aðrir hlutar líkamans, en svo er ekki samkvæmt núverandi kerfi. En þegar upp er staðið snýst þetta um fjárveitingar. Samt sem áður hafa fjárveitingar til niðurgreiðslna á tannlæknaþjónustu ekki verið nýttar að fullu í mörg ár, ekki fyrr en í ár þegar endurgreiðsluhlutfallið var hækkað.“

Fjölmörg börn fara ekki til tannlæknis

Sigurður segist heyra á hverjum degi af fjölmörgum tilvikum þar sem fólk hefur ekki ráð á að fara til tannlæknis. „Stundum byrjar fólk í meðferð, en hún dettur síðan upp fyrir vegna þess að fólk getur ekki greitt fyrir hana. Sumir fara aldrei til tannlæknis og um 40% barna fara ekki til tannlæknis á hverju ári eins og ráðlagt er.“

Sigurður segir að tannlæknar hafi reynt að breyta fyrirkomulaginu í mörg ár, en það eigi ekkert skylt við kjarabaráttu. „Við erum með okkar gjaldskrá, þannig að þetta snýst ekki um hvað við fáum greitt, heldur erum við að berjast fyrir skjólstæðinga okkar; fyrst og fremst börnin. Það er slæmt að geta ekki sinnt börnum sem þurfa á því að halda.“ 

Sigurður Benediktsson, formaður Tannlæknafélags Íslands.
Sigurður Benediktsson, formaður Tannlæknafélags Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert