300 björgunarsveitarmenn við leitir

Leit í Mývatnssveit.
Leit í Mývatnssveit. Ljósmynd/Landsbjörg/Magnús Viðar Arnarsson

Um 300 manns frá björgunarsveitum eru við fjárleit á Norðurlandi í dag. Veður hefur ekki leikið við leitarmenn á Norðausturlandi í morgun; skyggni var lítið, þoka og súld en virðist vera að létta til. Afar misvísandi fregnir berast af ástandi fjárins. Mikið er þó að finnast á lífi en hafa ber í huga að aðeins hefur tekist að gera grein fyrir hluta þess fjár sem saknað er, segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

Á Þeistareykjum er verið að leita norðursvæðið og koma fénu í hólf. Þaðan er það rekið í safnhólf sem er um 15 km suður af Þeistareykjum. Ráðgert er að gera hið sama á suðursvæðinu á morgun. Þrátt fyrir að mikil vinna liggi í því að finna fé sem grafið er í snjó er ekki minna verkefni að koma því til byggða. Svæðið er erfitt yfirferðar og snjóþungt og ekki hægt að smala með göngumönnum. Því eru fjórhjól og sleðar notuð við smölunina og snjóbílar ryðja leiðir fyrir safnið til byggða. Leit verður fram haldið á Þeistareykjum næstu daga enda svæðið stórt, aðstæður krefjandi og þar er mikið fé.

 Leit er að mestu leyti lokið í Bárðardal en áfram er leitað á Reykjaheiði og í Flateyjardal auk þess sem verið er að aðstoða bændur í Kelduhverfi. Þar er leitað að fé í börðum og misgengissprungum.  Verið er að hefja leit í Skarðsdal og Fnjóskadal og vonir standa til að hægt sé að klára leit þar í dag. Einnig eru verkefni í Eyjafirði og á Hörgárdalsheiði.

 Björgunarsveitir eru einnig að störfum í Fitjadal, Gautsdal og Laxárdal í V-Húnavatnssýslu. Síðar í dag verður farið með bændum og fé smalað úr Sauðadal. Hópar verða sendir í Kolbeinsdal og Mælifellsdal.

Vinnu björgunarsveita við raforkukerfið er að mestu lokið, þó aðstoðaði hópur frá Mývatnssveit RARIK á Gautlöndum í gærkvöldi.

 Björgunarsveitir af öllu Norðurlandi, Austfjörðum og höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þátt í þessari gríðarstóru aðgerð sem nú er á fjórða degi. Mikill fjöldi tækja í eigu björgunarsveita er notaður við leitir: tugir vélsleða, átta snjóbílar, fjöldi fjórhjóla og jeppa auk þess sem kerrur og þotur koma að góðu gagni við að flytja fé.

Snjóugt land við Þeistareyki í morgun. Björgunarsveitir eru að störfum.
Snjóugt land við Þeistareyki í morgun. Björgunarsveitir eru að störfum. Ljósmynd/Landsbjörg/Hallgrímur Óli Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert