„Hafa brugðist öllum loforðum“

„Mér finnst sem þeir hafi brugðist öllum loforðum,“ segir Bergur Rögnvaldsson, fyrrverandi formaður svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Garðabæ, en hann hefur sagt nú sig úr flokknum vegna mikillar óánægju með framgöngu forystumanna hans. Bergur gekk til liðs við flokkinn árið 2003 og hefur síðan verið virkur í starfi hans. Þannig gegndi hann formennsku í VG í Garðabæ sem áður segir um árabil.

Bergur segir að ástæðan sé meðal annars sú að loforð sem gefin hafi verið, og þá ekki síst varðandi landsbyggðina, hafi verið látin afskiptalaus. Þá einkum varðandi flutningsjöfnuð sem hann hafi sjálfur lagt mikla áherslu á. Aukin skattlagning á ferðaþjónustuna komi ennfremur illa niður á hinum dreifðu byggðum og vísar hann þar til hækkunar á virðisaukaskatti á hótel- og gistiþjónustu.

Ennfremur nefnir hann þá ákvörðun að styðja umsókn um inngöngu í Evrópusambandið þrátt fyrir skýra stefnu VG gegn inngöngu í sambandið svo fátt eitt sé nefnt. Segir hann forystumenn flokksins rúna trausti og því hafi hann talið sig knúinn til þess að stíga það skref að segja skilið við hann.

„Ég hef hugsað um þetta lengi og beðið þess að mínir framámenn gerðu eitthvað í málunum. Ég hef hins vegar gefist upp á þeirri bið,“ segir Bergur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert