Húsleit í Hafnarfirði vegna amfetamínframleiðslu

Svæði girt af vegna rannsóknar málsins í Efstasundi í gær.
Svæði girt af vegna rannsóknar málsins í Efstasundi í gær. mbl.is/Kristinn

Húsleit var gerð á verkstæði í Hraunahverfinu í Hafnarfirði um hádegi í dag í tengslum við rannsókn lögreglu á amfetamínframleiðslu sem upprætt var við Efstasund í gær. Þetta staðfestir lögreglan í samtali við mbl.is en vill að öðru leyti ekkert tjá sig um málið.

 Lögreglan handtók karlmann á fimmtugsaldri vegna þess máls í gær og verður tekin ákvörðun um gæsluvarðhald yfir honum í dag.

Líkt og fram kom í frétt mbl.is í gær girti lögreglan af svæði við Efstasund í Reykjavík við rannsókn málsins. Lögreglan fann þar búnað til framleiðslu fíkniefna í bílskúr síðdegis í gær. Lagt var hald á tæki og tól sem og efni til að framleiða fíkniefni en unnið var að því með aðstoð sérfræðinga frá Háskóla Íslands og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að fjarlægja búnaðinn af vettvangi.

Talið er að amfetamín hafi verið framleitt í bílskúrnum en húsráðandi, karl á fimmtugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og vistaður á lögreglustöð. Engin sprengihætta var samfara aðgerðum lögreglu, sagði í tilkynningu lögreglunnar um málið í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert