Getur fækkað tilfellum um 70%

Á síðasta ári var farið af stað í bólusetningarherferð við leghálskrabbameini og hér eftir verða allar tólf ára stúlkur bólusettar. 

„Ég held að unglingar hugsi ekki svo að fyrst þau séu bólusett þá geti þau stundað óvarið kynlíf. Það eru til rannsóknir á þessu, innlendar sem og erlendar, sem benda til þess að svo sé ekki,“ segir Þórólfur Guðnason, yfirlæknir hjá sóttvarnarlækni í viðtali í Sunnudagsmogganum í dag.

„Umræðan um ábyrgt kynlíf snýst náttúrlega ekki bara um þetta heldur líka aðra kynsjúkdóma og annað slíkt, þessi umræða hefur engu að síður verið uppi. Varðandi aukaverkanir þá hafa rannsóknir og reynslan af notkun bóluefnanna annars staðar sýnt að það er alveg jafn öruggt og annað bóluefni, það eru ekki sérstakar aukaverkanir sem fylgja því. Það er til dæmis mikill misskilningur að halda því fram að þetta bóluefni valdi leghálskrabbameini.“

Kynmök er helsta smitleiðin

Þórólfur segir að til sé fjöldinn allur af svokölluðum HPV-veirum en tiltölulega fáar þeirra hafi tengsl við leghálskrabbamein. Það séu aðallega tvær tegundir.

„Kynmök er helsta smitleið þessara veira. Það er því hægt að segja að leghálskrabbamein sé afleiðing af kynlífi. Líkurnar á smiti aukast eftir því sem bólfélagarnir eru fleiri. Flestar konur sýkjast þó einhvern tímann á lífsleiðinni því veiran er mjög algeng. Sem betur fer er það í fæstum tilfellum sem hún veldur vandræðum, líkaminn ræður oftast niðurlögum hennar. Það eru alltaf einhverjar konur sem fá forstigsbreytingar í leghálsi og í mörgum tilfellum ganga þær líka til baka. Síðan eru enn færri sem enda með krabbamein. Það er því aðeins í undantekningartilvikum, miðað við fjölda sýktra, sem veiran veldur krabbameini,“ segir læknirinn.

Óvenjulegt bóluefni

„Það er ekki alveg komið í ljós hvort bóluefnið virki eins og ætlast er til. Þetta er mjög óvenjulegt bóluefni að því leytinu til að það tekur mörg ár að sjá árangurinn af bólusetningunni. Það getur liðið mjög langt frá því að kona smitist af veirunni og þar til krabbamein komi í ljós, allt upp í tíu til tuttugu ár.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert