Borgarlögmaður skoði New York-ferð Oddnýjar

Ráðhús Reykjavíkurborgar.
Ráðhús Reykjavíkurborgar. mbl.is/Hjörtur

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar óskuðu eftir því á síðasta fundi ráðsins að borgarlögmanni yrði falið að kanna hvort farið hefði verið að reglum borgarinnar um ferðakostnað þegar Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, fór í vikuferð til New York á kostnað ráðsins fyrr á þessu ári ásamt nokkrum starfsmönnum þess.

Fram kemur í bókun Mörtu Guðjónsdóttur, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og Lífar Magneudóttur, fulltrúar VG, á fundinum 5. september síðastliðinn að í reglum Reykjavíkurborgar um ferðakostnað sé skýrt kveðið á um að ákvarðanir um ferðir fulltrúa í nefndum á vegum borgarinnar skuli kynna á fundi í viðkomandi nefndum.

„Það var hins vegar ekki gert í þessu tilfelli eins og komið hefur fram þótt ljóst sé að umræddur fulltrúi fór í ferðina sem kjörinn fulltrúi og nefndarmaður en ekki sem starfsmaður skóla- og frístundasviðs. Samkvæmt svari sviðsstjóra SFS, dags. 30. apríl var ákvörðun um ferð formannsins tekin 20. janúar og því hefði verið eðlilegt að upplýsa ráðið um ferð umrædds nefndarmanns áður en hún var farin í stað þess að halda henni leyndri eins og gert var," segir í bókuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert