Allt kerfið í jarðstreng

Töluverður snjór er á því svæði þar sem rafmagnslínur skemmdust.
Töluverður snjór er á því svæði þar sem rafmagnslínur skemmdust. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

RARIK hefur ákveðið að við uppbyggingu raforkukerfisins í Mývatnssveit verði nánast öll línan lögð í jarðstreng. Gríðarlegt tjón varð á dreifikerfinu í ísingarverðri í síðustu viku og segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, að byggja þurfi kerfið í Mývatnssveit upp frá grunni.

Það tók starfsmenn RARIK næstum alla síðustu viku að gera við til bráðabirgða eftir að rafmagnslínur slitnuðu í ísingarveðri 10. september. Tjón varð á raflínum í Skagafirði og Mývatnssveit.

„Það liggur fyrir að þarf að endurnýja dreifikerfið í Mývatnssveit, nánast eins og það leggur sig. Við byrjum á því á þessu ári, en gerum ekki ráð fyrir að því verði lokið fyrr en á næsta ári, en við erum að tala um að taka nánast allt kerfið í Mývatnssveit í jörð,“ segir Tryggvi.

Búið er að leggja um 10 km af jarðstrengjum ofan jarðar til bráðabirgða, en fyrirhugað er að leggja um 20 km af jarðstrengjum þegar búið er að byggja upp allt kerfið að nýju.

Tryggvi segir ekki gott að treysta á þessa bráðabirgðaviðgerð lengi, enda sé kerfið ekki löglegt eins og það er núna. Þetta sé neyðarráðstöfun. Menn muni því hraða viðgerð eins og nokkur er kostur.

Tryggvi segir að áður en framkvæmdir við jarðstreng geti hafist þurfi að ræða við landeigendur og Vegagerðina og semja við verktaka.

Ódýrara að nota jarðstrengi í lágri spennu

Oft hefur verið talað um að jarðstrengir séu dýrir, en þá er verið að tala um háspennulínur. „Það er alveg gjörólíkt hvort við erum að tala um háspennulínur eða dreifilínur. Við erum að vinna á 11 kílóvolta spennu og það er ódýrara að leggja jarðstrengi en að byggja línur, þar sem hægt er að koma við plægingu eða tiltölulega litlum greftri. Þegar verið er að tala um stóru línurnar eins og hjá Landsneti þá snýst þetta alveg við. Þar er margfaldur kostnaður að setja í jarðstrengi. Það er ekki hægt að bera það saman,“ segir Tryggvi.

Tryggvi segir að dreifikerfið í Mývatnssveit hafi verið komið á tíma og fyrirhugað hafi verið að endurnýja það innan 8 ára. Línan hafi verið lögð með höndunum á sínum tíma og því ekki hægt að koma tækjum alls staðar við, en línan liggur að hluta yfir hraun.

RARIK telur að tjón fyrirtækisins í veðrinu sé 150-200 milljónir. Tryggvi segir að á móti komi að menn séu að ráðast í endurbyggingu á línu sem hafi átt að endurnýja á næstu árum. Að hluta sé því um flýtiframkvæmd að ræða.

Mikið tjón varð á dreifikerfinu í Mývatnssveit.
Mikið tjón varð á dreifikerfinu í Mývatnssveit. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Ísing hlóðst utan á raflínurnar í veðrinu og við það …
Ísing hlóðst utan á raflínurnar í veðrinu og við það slitnuðu línurnar. Ljósmynd/RARIK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert