Álagið eiginlega ómannlegt

Ys og þys á bráðamóttöku Landspítalans.
Ys og þys á bráðamóttöku Landspítalans. Mbl.is/Árni Sæberg

Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans lýsir álaginu sem gríðarlegu. Þegar sjúkraliða vantar á vakt ganga hjúkrunarfræðingar í þeirra störf. Hann segist lifa fyrir starfið en hafi íhugað að segja því lausu þegar hann opnaði launaseðilinn í ágúst. Grunnlaunin eru 278 þúsund á mánuði.  

Lítill tími fyrir sjúklingana

„Þetta er svolítil klikkun og þegar álagið er sem mest er það eiginlega ómannlegt. Við höfum ekki mikinn tíma fyrir sjúklingana, því er nú verr og miður. Maður sinnir grunnþörfunum og þessu nauðsynlega, en það gefst ekki tími fyrir meira,“ segir Gunnar Pétursson sem starfað hefur sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í tvö ár. 

Gunnar skrifaði pistil á sunnudagskvöld sem gengið hefur milli manna á Facebook þar sem hann segir frá yfirfullum göngum spítalans, stöðugu flæði sjúklinga og örþreyttu starfsfólki. Hann segir kveikjuna hafa verið sérstaklega erfiða næturvaktahelgi. 

„Álagið er gríðarlegt þarna, en þetta var óvenju erfið vakt. Öll rúm full og ekkert fráflæði af deildinni enda alls staðar full rúm á spítalanum í báðum húsum svo við komum sjúklingunum hvergi fyrir. Sem betur fer var mönnunin mjög góð en það var samt tæpt um morguninn því þá hringdu nokkrir sig inn veika og ástandið hefði getað orðið hættulegt ef ekki hefði verið gripið inn í á réttan hátt.“

Langur biðtími

Á mestu álagspunktum á bráðamóttökunni má ekkert út af bera að sögn Gunnars, en hann leggur þó áherslu á að sjúklingar séu aldrei í beinni hættu út af álaginu. „En við myndum vilja geta sinnt þeim betur. Stundum er biðtíminn rosalega mikill af því við erum að bíða eftir plássum á öðrum deildum.

„Eins er álagið mikið á deildarlækna sem koma af lyflækninga- og skurðlækningasviði með langa biðlista af sjúklingum til að skoða og leggja inn. Þetta skapar erfitt ástand, bæði fyrir sjúklinginn og starfsfólkið en ekki síður aðstandendur. Engum finnst gaman að bíða en við reynum að vinna eins hratt og við getum.“

Í júlímánuði var Gunnar samtals 227 klukkustundir í vinnunni. „227 klukkustundum af því að taka þátt í lífsbjargandi aðgerðum, halda í hendur sjúklinga á oft verstu tímum lífs þeirra, lina verki, búa um sár, sjá um mál ótal sjúklinga sem þurftu þjónustu mína, vera til staðar þegar á þurfti að halda, koma inn næstum fyrirvaralaust þrátt fyrir að eiga frídag, ræða við ættingja sjúklinga og veita þeim stuðning [...]“ Þegar hann opnaði launaseðilinn næstu mánaðamót segist Gunnar hafa íhugað að segja upp. 

Kvöld, nætur og helgar bjarga laununum

„Mér fannst þetta svo mikil móðgun við mig og tíma minn, því maður er að fórna sér svo gjörsamlega. Maður bara skammast sín. En ég vil alls ekki vera að væla, mér finnst þetta vera skemmtilegasta starf í heimi og ég lifi fyrir það. Það eru verðlaunin sem ég fæ. Ef mér þætti þetta starf ekki svona skemmtilegt væri ég löngu hættur.“

Grunnlaun hjúkrunarfræðings eru 278 þúsund krónur á mánuði. Margir bæta það upp með mikilli vaktavinnu, líkt og Gunnar, en ekki hafa allir tök á því. „Ég vinn aðallega kvöld, helgar og nætur og ég hef það svo sem ágætt. Ég fæ hærra útborgað en grunnlaunin segja til um vegna vaktanna, en ef ég þyrfti að vinna dagvinnu þá gæti ég varla borgað leigu og föst útgjöld. Ég hugsa til þess með hryllingi ef ég þyrfti að sjá fyrir barni á þessum launum.“

Væntingar um betri kjör

Í morgun fjölmenntu hjúkrunarfræðingar á samstöðufund og kröfðust kjarabóta, en þeim er að sögn ofboðið vegna launahækkunar forstjóra Landspítalans. Aðspurður segist Gunnar búast við því að atburðir undanfarinna daga hafi áhrif á kjaraviðræður hjúkrunarfræðinga. „Ég vona það. Auðvitað eiga menn skilið umbun fyrir góð störf. Björn Zoëga er búinn að gera góða hluti, og þetta á örugglega eftir að hafa áhrif. Ég trúi ekki öðru.“

Sjálfur hyggur Gunnar á meistaranám í hjúkrunarfræði erlendis. Margir kollega hans hafa flutt til Noregs og annarra nágrannalanda til að drýgja tekjurnar en sjálfur stefnir Gunnar á Sidney í Ástralíu. Ævintýraþrá spilar þar inn í, en hann segist auk þess telja að kjör hjúkrunarfræðinga séu betri þar. „Kjörin eru þægileg, engar hátekjur, en góð.“

Gunnar Pétursson hjúkrunarfræðingur
Gunnar Pétursson hjúkrunarfræðingur Ljósmynd/Úr einkasafni
Slösuðum sinnt á bráðamóttökunni í Fossvogi.
Slösuðum sinnt á bráðamóttökunni í Fossvogi. Mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert